135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

stefnumörkun í málefnum kvenfanga.

514. mál
[14:36]
Hlusta

Flm. (Alma Lísa Jóhannsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir að þingsályktunartillaga mín komst á dagskrá. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnumörkun í málefnum kvenfanga og stofnun deildaskipts fangelsis fyrir konur. Tillagan er á þskj. 813, þingmál nr. 514.

Flutningsmenn tillögunnar eru ásamt mér hv. þingmenn Álfheiður Ingadóttir, Ögmundur Jónasson og Paul Nikolov.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að móta stefnu í málefnum kvenfanga og undirbúa byggingu deildaskipts fangelsis fyrir konur sem yrði á höfuðborgarsvæðinu.“

Í tilefni af stækkun Kvíabryggju þann 3. október síðastliðinn tilkynnti dómsmálaráðherra að núverandi ríkisstjórn hefði hug á því að fylgja eftir áætlun um endurnýjun og nýbyggingar fangelsa í landinu. Til þessarar áætlunar er einnig vitnað í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar en hún var samþykkt árið 2005 af þáverandi ríkisstjórn. Í áætluninni kemur fram að til stendur að gera endurbætur á fangelsinu á Akureyri, sem nú eru búnar, að fjölga skuli rýmum á Kvíabryggju úr 14 í 22 og að gera skuli endurbætur á aðkomu- og heimsóknarhúsi á Litla-Hrauni. Þar að auki á að byggja sex klefa deild fyrir konur sem og opnari deild fyrir fanga en nú stendur til boða í fangelsinu. Einnig stendur til að reisa nýtt fangelsi með sex til fjórum klefum á höfuðborgarsvæðinu þar sem verði gæsluvarðahald, afplánun í skamman tíma, meðferðar- og sjúkradeild.

Í október 2006 skipaði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra nefnd undir forustu Margrétar Sæunnar Frímannsdóttur sem ætlað var að leggja fram tillögur að markvissri stefnu varðandi framtíðarrekstur fangelsisins að Litla-Hrauni. Nefndin hefur nú lokið starfi sínu og skilað af sér skýrslu. Í skýrslunni er meðal annars fjallað um þá stefnu fangelsismálayfirvalda að vista kvenfanga í öryggisfangelsinu á Litla-Hrauni. Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að það sé mikilvægt að konur hafi kost á því að afplána refsivist sína í sérstöku kvenfangelsi. Einnig telur nefndin mikilvægt að mótuð verði sérstök stefna í málefnum kvenfanga.

Ljóst er að Ísland hefur staðið afar langt á eftir þeim löndum sem við berum okkur saman við hvað afplánunarmál kvenna varðar. Þegar litið er til skipanar mála í löndum sem talin eru framarlega í málefnum kvenfanga er misjafn hátturinn á. Í Svíþjóð eru kvenfangar vistaðir í sérstökum kvennafangelsum. Danir hafa vistað karla og konur í sameiginlegum fangelsum en þó á aðskildum deildum og það sama á við um Noreg. Norðmenn eru einnig með sérstök kvennafangelsi. Bretar og Kanadamenn hafa hins vegar ekki verið með blandaða fangelsisvist.

Í febrúar síðastliðnum, eftir stækkun Kvíabryggju, voru kvenfangar í fyrsta sinn vistaðir í fangelsinu á Kvíabryggju í Grundarfirði. Þar er nú útbúið sérhúsnæði fyrir konur. Samskipti kynjanna eru með sama hætti og í öðrum fangelsum landsins og er föngum gert að fara eftir sérstökum reglum um samskipti kynjanna. Konur eru á sama hátt og karlar sérvaldar í afplánun á Kvíabryggju. Þær taka þátt í því sama og karlar innan fangelsis.

Fram kemur í viðtali við Erlend S. Baldursson afbrotafræðing hjá Fangelsismálastofnun í Fréttablaðinu 17. febrúar síðastliðinn að konur eigi ekki sömu möguleika til dæmis hvað tómstundir, útivist og vinnu varðar í Kópavogsfangelsi þar sem þær hafa alla jafna afplánað. Mikilvægt er að það ríki jafnrétti milli kynja í fangelsum landsins eins og annars staðar og því er brýn þörf á að farið verði af stað eins fljótt og unnt er með það verkefni að móta stefnu í þessum málum og búa konum sem afplána dóm sömu skilyrði og körlum. Það þarf að leiðrétta þá mismunun sem hefur átt sér stað á hlut kvenna og auka fjölbreytni í afplánunarúrræðum fyrir konur.

Auðvitað ber að fagna því að tekið hefur verið skref í rétta átt með því að bjóða upp á aðra vistunarmöguleika fyrir konur en áður hafa verið í boði hér á landi. En það er ólíðandi að afplánunarúrræði skuli enn þann dag í dag vera háð kynferði og hljóta þau rök að ekki skuli mismunað vegna kynferðis að vega þyngra en efnahagsleg rök.

Eitt af höfuðmarkmiðum á sviði fangelsismála hlýtur að vera að aðstoða þann sem afplánar dóm til að breyta lífi sínu til hins betra. Til þess þarf fanginn stuðning og skapa þarf skilyrði sem bjóða upp á þau fjölþættu úrræði sem þarf til þess að koma til móts við mismunandi aðstæður fólks. Núverandi framboð á fangelsisvistun fyrir konur býður ekki upp á slíkt. Aðbúnaður í fangelsinu við Kópavogsbraut er engan veginn viðunandi og fyrirhuguð uppbygging á Litla-Hrauni kemur á mörgum sviðum ekki til móts við þarfir kvenna.

Tölur frá Noregi sýna að konum fjölgar í fangelsum þarlendis og stafar það að mestu leyti af fjölgun fíkniefna- og auðgunarbrota. Það er engin ástæða til að ætla að ekki megi sjá sömu þróun hérlendis. Samkvæmt grein Margrétar Sæmundsdóttur, Vangaveltur um félagslega stöðu kvenna í afbrotum frá 2005, eru konur að jafnaði dæmdar fyrir önnur brot en karlar. Brot þeirra eru ekki eins ofbeldisfull, en það sem bæði kynin virðast eiga sameiginlegt eru fíkniefnabrotin, en um 30% eru að afplána fangelsisvist fyrir slík brot. Rannsóknir hafa einnig sýnt að konur hafa að jafnaði lengri meðferðarsögu á bak við sig en karlar sem afplána fangavist. Þær þurfa því afar góð meðferðarúrræði og í mörgum tilvikum aðstoð frá aðilum eins og Stígamótum og Kvennaathvarfi.

Meiri hluti kvenfanganna sem voru að afplána í fyrsta sinn áttu við mun meiri félags- og heilbrigðisvanda að stríða en karlmenn í sömu stöðu. Í raun er vandi þeirra mun líkari félags- og heilbrigðisvanda karlfanga sem við í daglegu máli köllum síbrotamenn. Þeir sem starfa innan fangelsismála hafa bent á mikilvægi þess að taka tillit til sérþarfa kvenna en þarfir þeirra eru á ýmsan hátt aðrar en karla. Einnig hafa margar þessara kvenna alist upp við líkamlegt og/eða andlegt ofbeldi og eru úrræði sem mæta þessum þörfum grundvöllur þess að þeim vegni vel þegar afplánun lýkur. Sameiginleg afplánun karl- og kvenfanga getur haft í för með sér að meðferðarskilyrði þessara kvenna versni. Oft eru eldri tengsl til staðar á milli kven- og karlfanga, meðal annars sökum smæðar okkar hér á Íslandi og flækir það málið enn frekar.

Menntunarstig þeirra kvenna sem tóku þátt í rannsókn Margrétar var lágt en 61% þeirra höfðu einungis lokið grunnskólaprófi. Það vantar töluvert upp á möguleika kvenna á því að sækja sér menntun innan fangelsanna. Mikilvægt er að boðið sé upp á kennslu við hæfi og einstaklingsmiðaða ráðgjöf. Góð aðstaða til að stunda nám þarf að vera til staðar og tryggja þarf föngum náms- og starfsráðgjöf. Rannsóknir hafa sýnt að menntun í fangelsi hefur fyrirbyggjandi áhrif og er því bara af hinu góða.

Viðunandi útivistar- og líkamsræktaraðstaða er augljóslega einnig mikilvæg fyrir fanga. Núverandi aðbúnaður býður ekki upp á slíkt og í hugmyndum um uppbyggingu á Litla-Hrauni er ekki gert ráð fyrir breytingum á þeirri aðstöðu sem fyrir er, sem þýðir að hún mun ekki verða viðunandi fyrir kvenfanga sem þar munu afplána sinn dóm. Af rannsóknum sem gerðar hafa verið um tómstundaframboð til kvenna í blönduðum fangelsum kemur fram að þær hafa ekki sama aðgang að fjölbreyttum úrræðum og karlmenn innan fangelsisins og blönduð fangelsisvist er beinlínis valdur að þessum skorti á fjölbreytileika í úrræðum fyrir konur. Þá stafar þetta að mestu leyti af því að þær eru í miklum minni hluta og aðstæður bjóða ekki upp á fjölbreytileika.

Tækifæri til þátttöku í samfélaginu er lykilatriði í því að upplifa sig sem hluta af heildinni. Því er framboð á atvinnu, námi og tómstundum ásamt viðeigandi meðferð á heilbrigðis- og félagslegum vanda algjör grundvöllur í uppbyggingarstarfi fangelsanna. Þannig fá fangar þau verkfæri sem þarf til að takast á við kröfur samfélagsins.

70% þeirra kvenna sem tóku þátt í rannsókn Margrétar voru mæður og tæplega helmingur þeirra á fleiri en eitt barn. Þetta þýðir að fangelsun mæðra á tímabilinu 1998–2003 hefur snert um 60 börn á Íslandi. Við megum ekki gleyma því að þegar mæður eru dæmdar í fangelsisvist eru börn að sama skapi dæmd í aðskilnað. Brýnt er að konum sem afplána fangavist sé boðin viðunandi aðstaða fyrir börn. Það þarf að taka tillit til þess að fangar og ekki síst kvenfangar hafi sterk tengsl við fjölskyldu sína og þurfi á þeim að halda auk þess sem það er nauðsynlegt fyrir börnin. Það er því mikilvægt að staðsetning kvennafangelsis sé þannig að það sé aðgengilegt fjölskyldum þeirra sem afplána þar. Konur sem búa við erfiðar aðstæður félagslega og heilbrigðislega eru afar viðkvæmar fyrir. Hlúa þarf að þeim og veita þeim þá aðstoð sem þarf þannig að þær geti tekist á við umönnun barna sinna eftir að afplánun lýkur og að þær þurfi ekki að lifa í fátækt og óöryggi. Núverandi aðstæður fyrir börn mæðra í fangelsum á Íslandi eru engan veginn viðunandi. Í ljósi þess að aðskilnaður mæðra frá börnum sínum er beinlínis niðurbrjótandi fyrir konur í fangavist, að ekki sé talað um áhrifin á börnin, er okkur skylt að bæta þetta. Samskipti við aðstandendur og börn eru það mikilvægasta í lífi margra fanga og ber okkur því að skapa skilyrði sem viðheldur þeim góðu tengslum sem fyrir eru.

Hægt er að halda því fram að konur í afplánun á Íslandi hafi gleymst í þessari uppbyggingarvinnu sem dómsmálaráðuneytið vinnur að. Uppbygging refsivistar er að stærstum hluta sniðin að þörfum karla. Það er afar brýnt að nú verði eitthvað að gert. Fangelsismálastofnun og starfsmenn hennar vinna mjög gott og mikilvægt starf en núverandi aðstæður eru hamlandi fyrir það uppbyggingarstarf sem þar er í gangi. Þrátt fyrir umræður um þessi mál á Alþingi hefur lítið verið að gert og staðan er orðin þannig að hún þolir enga bið.

Virðulegi forseti. Ég skora á stjórnvöld að hefjast þegar handa við að bæta úr þessum málum. Ríkisstjórn sem er tíðrætt um mannréttindi og jafnrétti hlýtur að líta svo á að henni beri að hlúa að hag kvenfanga til jafns við karlfanga. Það er ekki eftir neinu að bíða.