135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

fjárveitingar til úrbóta á sviði geðverndar barna og ungmenna.

[15:01]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Fyrr í dag ræddum við hina góðu stöðu í heilbrigðismálum okkar, heilbrigðisþjónustu sem fær fyrstu einkunn í nýrri skýrslu OECD. Við hljótum því miður að viðurkenna að geðheilbrigðismál hafa verið olnbogabarn í þessu góða heilbrigðiskerfi og ekki síst geðheilbrigðismál barna eða þjónusta við börn með geðraskanir.

Í ágúst á síðasta ári var tilkynnt langþráð átak í þeim efnum og skyldi 150 millj. kr. varið til þess málaflokks á 18 mánaða tímabili í þeim tilgangi m.a. að eyða biðlistum, styrkja barna- og unglingageðdeildina, miðstöð heilsuverndar barna og efla þjónustu við börn og unglinga með geðraskanir á landsbyggðinni. Tillögurnar voru unnar í samráði við starfsmenn BUGL og Miðstöðvar heilsuverndar barna og markmiðið var að greiða leið barna og unglinga að geðheilbrigðisþjónustunni og stytta biðlistana. Meðal aðgerða sem þar eru nefndar er m.a. að kalla til sjálfstætt starfandi sérfræðinga á sviði geðheilbrigðisþjónustu, bæði barnageðlækna, barnalækna og sálfræðinga til að auka aðgengi að þjónustu þeirra. Langtímaáætlun skyldi sett um forvarnir í geðvernd og þróað nýtt samskiptakerfi til að auka samvinnu þeirra sem starfa að þessum málum á landinu. Síðan voru tvö tilraunaverkefni styrkt sérstaklega á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Heilbrigðisstofnun Austurlands í eitt ár.

Eins og heyra má er þetta mjög umfangsmikið verkefni og ekki er öllu lokið enn því að ráðinn var fræðslustjóri á BUGL til að styrkja þjónustuhlutverk stofnunarinnar og efla einnig skylda starfsemi Miðstöðvar heilsuverndar barna sem ég nefndi. Í upphafi þessa nýbyrjaða árs, það er reyndar komið fram í apríl, skyldi einnig liggja fyrir ítarleg úttekt á starfsemi og stjórnun BUGL og á grundvelli hennar taka ákvarðanir um framtíðarskipulag og rekstrarform.

Hér er um afar brýnt verkefni að ræða því að allt of lengi hefur geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga setið á hakanum í heilbrigðisþjónustu okkar. Þegar hæstv. heilbrigðisráðherra kynnti þessa áætlun 16. ágúst í fyrra voru 165 börn og ungmenni á biðlista BUGL, mörg í sárri neyð og bráðri. Á bak við hvert nafn á þessum biðlista er örvæntingarfull fjölskylda, foreldrar, systkini, frændgarður og vinir sem eiga eðlilega bágt með að skilja hvernig á því stendur að það fæst ekki hjálp mánuðum saman, ekki einu sinni viðtal við sérfræðing, hvað þá innlögn. En eins og allir vita getur það einmitt skipt sköpum fyrir þroska og geðheilbrigði einstaklings í áhættuhópi að hann fái læknis- og sálfræðiþjónustu strax og fyrstu einkenna verður vart. Það var því ekki nema von að áætluninni yrði fagnað. Nú eru liðnir átta mánuðir af þessum 18 og tími til kominn að spyrja um árangurinn og hvernig þessum 150 millj. kr. hefur verið varið til þessa og hver áætlun er um frekari fjárveitingar á þessu sviði.

Við vitum auðvitað öll að biðlistanum á BUGL hefur ekki enn þá verið útrýmt, því miður. Við vitum líka að laun starfsmanna í umönnunarstörfum þar eða annars staðar hafa heldur ekki verið hækkuð og það er ekki auðvelt að fá fólk til þessara starfa, ekki auðveldara en það var í ágúst í fyrra. Við vitum að úttekt á starfsemi og stjórn BUGL hefur ekki enn verið kynnt en það eru tíu mánuðir enn eftir af þessum tíma.

Fyrir um mánuði síðan eða svo voru kynnt í fjölmiðlum áform um opnun einkarekinnar geðlæknastöðvar fyrir börn og unglinga en í morgun ræddum við einmitt um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni. Til stendur að opna svokallaða geðdeild barna og unglinga í gömlu heilsuverndarstöðinni sem nú heitir Heilsuverndarstöðin ehf.

Ég vil því nota þetta tækifæri og spyrja ráðherra m.a. hvað barna- og unglingadeildin hefur fengið stóran hlut af þessum 150 millj. sem verja skal til verkefnisins og hvernig þessu fé hefur að öðru leyti verið varið. Enn fremur spyr ég hvernig gengið hefur að fá sjálfstætt starfandi sérfræðinga að þessu borði, hvað úttektinni líður og loks hvort hin einkarekna geðdeild barna og unglinga hefur leitað eftir fjárveitingum frá ráðherra að ráðuneyti eða fengið samninga (Forseti hringir.) þar um.

Ég veit, herra forseti, að þetta er afskaplega umfangsmikið mál og því miður gefur (Forseti hringir.) þessi utandagskrárumræða (Forseti hringir.) okkur lítið tóm til að ræða það.