135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

fjárveitingar til úrbóta á sviði geðverndar barna og ungmenna.

[15:12]
Hlusta

Samúel Örn Erlingsson (F):

Virðulegi forseti. Það er við ramman reip að draga í málefnum barna og unglinga, þau sem varða geðdeild Landspítalans, og við þá aðila sem um þau fjalla. Heilbrigðisráðherra bar ótt á. Þær tölur sem hann fór hér yfir eru staðfestar í frétt í Morgunblaðinu í dag og ljóst er að þarna gerast hlutirnir hratt. Það er stöðugur straumur nýrra viðfangsefna og m.a. hafa verið afgreidd þar rúmlega 140 mál á rúmu hálfu ári, fjórir nýir starfsmenn ráðnir til starfa. Það er allt gott og blessað.

Það kemur fram í fréttinni að miðað sé við að bið eftir þessari þjónustu á barna og unglingageðdeild Landspítalans séu þrír mánuðir. Það er reyndar ekki talað um það í fréttinni hver hinn raunverulegi biðtími er en að þessu er stefnt. Hann hefur verið allt að helmingi lengri, eða hálft ár, en um leið og lofsorði er lokið á þær umbætur sem tekist hafa er mikil ástæða til að hvetja til enn frekari snerpu í þessum málum til að vinda ofan af þessu erfiða ástandi. Það þýðir enn meiri umbætur og enn meiri pening. Það eru líklega um tvö ár síðan biðlistinn eftir þjónustu á BUGL tvöfaldaðist eða þar um bil. Menn hafa kennt um auknum vanda, líka breyttum vinnubrögðum og viðmiðum.

Ég legg engan dóm á hin nýju vinnubrögð, sjálfsagt eru þau rétt. En það er rétt að geta þess að 22. september 2006 lagði Siv Friðleifsdóttir, þáverandi heilbrigðisráðherra, fram metnaðarfulla áætlun í níu liðum um þessi mál sem rímar í mörgu við þá áætlun sem kom svo fram í ágúst í fyrra hjá núverandi heilbrigðisráðherra.

Ég hvet til þess að gengið verði til þessara mála á enn breiðari grundvelli en hér hefur verið ræddur og hægt er að sjá í þeim áætlunum sem fram hafa komið og með því að hugsa jafnvel enn víðar. (Forseti hringir.) Það þarf að takast á við vanda barna og ungmenna á þessu sviði fyrr í ferlinu með félagslegum hætti og með hjálp og samningum við sálfræðinga. (Forseti hringir.) Sú dýra þjónusta má ekki vera greidd öll úr eigin vasa. Takist það (Forseti hringir.) þá hef ég trú á því að þeim tilfellum sem koma til kasta barna- og unglingageðdeildar (Forseti hringir.) geti fækkað hlutfallslega á ný.