135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

fjárveitingar til úrbóta á sviði geðverndar barna og ungmenna.

[15:19]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir að taka þetta mál upp á þingi. Á undanförnum þingum hafa málefni BUGL í raun og veru komið hér reglulega upp, því miður því að umræða um starfsemi þessarar mikilvægu deildar hefur oftast verið vegna mikils fjárhagsvanda og rekstrarerfiðleika, langra biðlista, erfiðleika og mikils álags hjá starfsfólki. Það sem skiptir mestu máli er að ekki skuli hafa verið hægt að koma börnum að í greiningu þegar grunur vaknar um að eitthvað alvarlegt sé að, hegðunarvandi, geðraskanir og eitthvað slíkt, að fram undir þetta skuli hafa verið bið í meira en ár eftir að koma barni að í greiningu og svo meðferð. Þetta hefur verið og er svartur blettur á heilbrigðisþjónustu okkar því að það skiptir miklu máli að grípa sem fyrst inn í til að sjúklingur nái bata, og ekki er nóg að aðstoða bara barnið heldur þarf fjölskyldan aðstoð.

Það sem þetta sýnir og segir okkur er í fyrsta lagi að stofnunin hefur verið fjársvelt, í öðru lagi vantar þetta net út í þjóðfélagið, það vantar þetta net út í heilsugæsluna og til þeirra sem koma að uppeldi og kennslu barna, sem sé út í skólana líka, þannig að þessir aðilar fái þann stuðning sem þeir þurfa. Ég heyri að sem betur fer er verið að byrja á því núna að veita þennan stuðning en BUGL situr uppi með erfiðustu tilfellin, erfiðustu greiningarnar og það verður að hlúa vel að þessari deild, líka skipulagi deildarinnar innan Landspítalans. Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða skipulag stofnunarinnar (Forseti hringir.) og búa þannig að Barna- og unglingageðdeildinni að hún verði sjálfstæðari og betur rekin eining innan stofnunarinnar.