135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

fjárveitingar til úrbóta á sviði geðverndar barna og ungmenna.

[15:22]
Hlusta

Dögg Pálsdóttir (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svör hans sem sýna að á stuttum tíma hefur vel verið unnið að brýnustu vandamálum á þessu sviði. Ég vil líka leyfa mér að bæta við að í þessari umræðu má ekki gleyma því sem vel er gert og ég minni á það að á Akureyri er rekin barna- og unglingageðdeild sem sinnir allri starfsemi á þessu sviði frá Hrútafirði til Djúpavogs.

Tölur um afköst á þeirri deild vekja miklar og stórar spurningar um grunnvandann á BUGL að mínu mati. Það kemur í ljós að á Akureyri er ekki nema einn geðlæknir þar í 75% starfi yfirlæknis. Að meðaltali er einn sálfræðingur á ári í starfi. Síðan sinnir að vísu geðlæknirinn stofupraxís sínum þarna inni þannig að hann er inni í tölunum.

Það var 30% aukning nýrra tilfella á Akureyri frá 2006 til 2007. Þessu fáliðaða liði tókst að sinna þeim öllum án þess að upp kæmi nokkur biðlisti. Það er enginn biðlisti á Akureyri, öllu er sinnt jafnóðum. Þetta vekur auðvitað spurningar um starfsemina á BUGL sem vissulega er góð en hún gæti hugsanlega verið miklu betri ef betur væri þar tekið á málum. Þess vegna fagna ég því sérstaklega sem fram kom í máli ráðherra, að það er unnið að úttekt á starfseminni á BUGL. Ég held að öll framtíðarvinna á þessu sviði hljóti að þurfa að byggja á því að sú starfsemi sé endurskoðuð. Ég held að peningana sem fara til BUGL megi nýta miklu betur.

Að lokum fullyrði ég að hluti af þessum vanda er að okkur vantar barna- og unglingageðlækna. Það er engin nýliðun í þessari grein og ég leyfi mér þess vegna að beina því til hæstv. heilbrigðisráðherra að hann hugi í áframhaldandi vinnu sinni á þessu sviði sérstaklega að því með hvaða hætti sé unnt að fá fleiri lækna til að sérmennta sig í barna- og unglingageðlækningum. Ég held að þetta sé (Forseti hringir.) grundvallaratriði.