135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

fjárveitingar til úrbóta á sviði geðverndar barna og ungmenna.

[15:29]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra svörin. Mér sýnist ljóst að mikilvægur og marktækur árangur hafi náðst með ráðstöfun þessara 150 millj. kr. sem er viðbótarframlag við framlag á fjárlögum þessara tveggja ára. Ég tel að það hafi verið hárrétt ákvörðun að stíga þetta skref og ég er sammála ráðherranum um að betur má ef duga skal. Það er mjög mikilvægt að þétta þessa þjónustu eins og gert hefur verið þannig að hún nái til landsins alls, einmitt í tengslum við öflugra BUGL og með aðkomu heilsugæslustöðvanna. Það þarf að nýta þá sérhæfingu sem hefur verið safnað upp á BUGL í áratugi og halda áfram uppbyggingunni þar.

Það er mikilvægt að skilgreina hvar vandinn liggur. Það er ekki þannig, eins og hv. þm. Dögg Pálsdóttir nefndi í ræðustól áðan, að þetta sé lýsandi fyrir grunnvandann á BUGL. Sá samanburður sem hún nefndi með Akureyri er lýsandi fyrir það hvernig heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu er háttað annars vegar og hins vegar heilsugæslunni á Akureyri og á því svæði. Akureyrarbær hefur notið þess að hafa þjónustusamning við ríkið og getað rekið alla heilsugæslu í bænum og samþætt hana félagslegri þjónustu og allri skólaþjónustu. Við höfum margoft bent á það hér að það er mikilvægt að breyta til á höfuðborgarsvæðinu.

Nú rýkur tíminn frá mér, herra forseti. Vegna þessarar nýju geðdeildar barna og unglinga sem er í uppsiglingu á Heilsuverndarstöðinni vil ég aðeins segja að ég tel að við höfum ekki efni á því að dreifa kröftunum og fara að byggja nú upp aðra barna- og unglingageðdeild sem ríkið á auðvitað að borga fyrir eins og hina meðan við erum ekki lengra á veg komin og meðan BUGL getur ekki betur sinnt hlutverki sínu eins og henni er ætlað. Ástæðan er m.a. sú sem hv. þm. Dögg Pálsdóttir nefndi, (Forseti hringir.) við höfum ekki nógu marga geðlækna sem hafa sérmenntun til að sinna börnum. Nú er (Forseti hringir.) ráð að efna til prófessorsstóls við Háskóla Íslands í því fagi til að hvetja stúdenta og lækna til frekara (Forseti hringir.) sérfræðináms á þessu sviði.

Herra forseti. Eins og mér bauð í grun áðan er þessi (Forseti hringir.) umræðutími ansi þröngur en ég þakka engu að síður fyrir þessa góðu umræðu.