135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

aðgerðir í efnahagsmálum.

[13:34]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra sem forustumann í ríkisstjórn út í efnahagsmál. Haft hefur verið eftir Gylfa Magnússyni dósent að það sem skipti hvað mestu máli nú sé hvernig Seðlabankanum takist að auka gjaldeyrisforða sinn en afar erfitt er að átta sig á því hvort hann verður efldur eða ekki. Þann 2. apríl sl. var haldinn mjög mikilvægur fundur forustumanna ríkisstjórnarinnar með Seðlabankanum eftir því sem sagt var. Hann var svo mikilvægur að ráðherrarnir tóku sérstaka einkavél á NATO-fundinn til að geta setið þennan fund. En það er mjög óljóst í dag hver afraksturinn var og hver árangurinn er af þessum fundi. Þann 10. apríl sl. segir Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans, að það sé meginverkefni banka að bjarga sér sjálfir. Menn eigi ekki að gleyma því og tala eins og ábyrgð bankanna liggi einhvers staðar annars staðar en hjá þeim sjálfum. Það kosti mikið fé að halda stóran gjaldeyrisforða.

Síðan gerðist það í gær að viðtal birtist við hæstv. utanríkisráðherra í Berlingske Tidende og þar slær hún því föstu að allir bankar landsins geti reiknað með stuðningi frá ríkisvaldinu ef þeir lendi í vandræðum. Hún segist tilbúin til að styðja þá beint með framlögum úr ríkissjóði og einnig að auka gjaldeyrisvarasjóð landsins. Á sama tíma hafnar hún því að bankarnir muni komast í þrot áður en lausafjárkreppunni á alþjóðamarkaði ljúki.

Ég spyr því: Er ágreiningur á milli ríkisstjórnarflokkanna um þetta mikilvæga mál eða er ágreiningur á milli ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans, nema hvort tveggja sé?