135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

aðgerðir í efnahagsmálum.

[13:37]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að gefa mér tækifæri til að koma aðeins inn á efnahagsmálin, þá stöðu sem þar er uppi og það sem sagt hefur verið um þau mál að undanförnu. Öllum ætti að vera ljóst að enginn ágreiningur er um það í landinu að mikilvægt er að bankarnir, þegar og ef þeir þurfa á því að halda, geti leitað eftir lausafé til þess aðila sem á að vera lánveitandi til þrautavara sem er Seðlabanki Íslands.

Það er mjög mikilvægt að menn hafi það í huga að lánveitandi til þrautavara er Seðlabankinn. Það er ekki ríkisstjórnin, það er Seðlabankinn. Seðlabankinn getur farið ýmsar leiðir í því og talað hefur verið um að Seðlabankinn sé m.a. að skoða lánalínur í bönkum erlendis og hvort hægt væri að tryggja þær — hvort sem síðan yrði dregið á þær og þá hvenær. Þetta væri ein leiðin sem hægt væri að fara, önnur leið væri að auka við gjaldeyrisvaraforðann. Allt eru þetta hlutir sem eru til skoðunar og það kemur einmitt fram í viðtali í Morgunblaðinu við seðlabankastjóra. Hann vék þar máli sínu að gjaldeyrisforða Seðlabankans og sagði ríkisstjórnina vilja stuðla að því að hann yrði aukinn með lántökum. Hann sagði að undirbúningur væri hafinn en niðurstaðan lægi ekki fyrir. Um þetta er því enginn ágreiningur á milli ríkisstjórnar og Seðlabanka eða annarra aðila.

Seðlabankastjóri lagði hins vegar áherslu á, og það er líka mikilvægt að hafa í huga, að þetta er ekki spurningin um einhverja daga. Bankarnir hafa sjálfir sagt að þeir standi vel, þeir geti endurfjármagnað sig í nokkra mánuði sjálfir. Það getur hins vegar komið til þess síðar að þeir þurfi á þessari fyrirgreiðslu að halda en það er ekki dagaspursmál. Hún þarf hugsanlega að vera til staðar síðar og að þessu er unnið.