135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

aðgerðir í efnahagsmálum.

[13:40]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég get ekki leiðrétt það sem hæstv. viðskiptaráðherra hefur sagt eða þær skoðanir sem hann kann að hafa á þessum málum. Hitt er alveg ljóst að málefni Seðlabankans heyra undir forsætisráðuneytið. Það er forsætisráðuneytið og forsætisráðherra sem fer með þau mál og það er á hans valdi hvort hann hugar að einhverjum breytingum á Seðlabankanum eða ekki. Málið er í hans höndum eins og gefur að skilja.

Varðandi gjaldeyrisvaraforðann skil ég ekki af hverju hv. þingmaður hefur haft einhverjar hugmyndir um að þar væri ágreiningur. Mér finnst það liggja algerlega skýrt fyrir í ummælum sem ég hef viðhaft, ummælum sem forsætisráðherra hefur viðhaft og ummælum sem seðlabankastjóri hefur viðhaft að menn telja mikilvægt að stækka gjaldeyrisforðann. Seðlabankastjóri sagði m.a. að hann teldi að það þyrfti að tvöfalda hann en það væri hins vegar spurningin um hvenær og hvernig það væri gert, það væri spurningin um tímasetningar í því sambandi en ekki hvort.