135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

rækjuveiðar.

[13:47]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Sú tímabundna staða sem hv. þingmaður nefndi gefur að sjálfsögðu ekki tilefni til þess að kalla inn rækjuveiðiheimildirnar. Það mundi auðvitað fyrst og fremst verða til þess að veikja grundvöll rækjuverksmiðjanna sem hefur verið nógu veikur fyrir. Við sjáum að því miður hefur þróunin verið sú að rækjuverksmiðjum í landinu hefur verið að fækka og þeim hefur fækkað vegna þess (GMJ: Rækjuverksmiðjur eiga ekki kvótann.) að þar hafa verið rekstrarerfiðleikar. Það er einfaldlega rangt hjá hv. þingmanni að rækjuverksmiðjur í mörgum tilvikum hafi ekki yfirráðarétt yfir þessum aflaheimildum, þessum veiðirétti. Vandinn hefur verið sá sem allir vita að það hafa verið erfiðleikar í rækjuiðnaði sem hafa gert það að verkum að það hefur verið erfitt fyrir þá sem hafa viljað stunda rækjuútgerð að gera það.

Hins vegar er rétt að það hefur í ýmsum tilvikum fiskast þokkalega. Það voru einn eða tveir bátar á rækju í fyrra og þeir fiskuðu ágætlega en það varð hins vegar ekki til þess að örva nægilega mikið áhuga manna á því að stunda rækjuveiðar. Er nú ekki rétt að atvinnulífið sjálft fái að reyna að vinna úr þessu eins og (Gripið fram í.) hentar og er auðvitað gert í þjóðfélaginu? Hv. þingmaður á ekki stöðugt að vera með þessa forræðishyggju.