135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

skyndilokanir.

[13:52]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er ekki viss um að sjávarútvegsráðherra hafi áttað sig á um hvað ég var að tala eða að hann átti sig á um hvað málið snýst. Ég var að spyrja hann að því hvort honum fyndist að það hefðu verið réttar aðgerðir sem hann greip til sem hafa leitt til þess að við erum að auka veiðar á smáþorski sem stóð til að friða. Það var þvert ofan í ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar. Ef hann hefur lesið skýrslu stofnunarinnar sem var gefin út í júlí í hittiðfyrra og árið þar á undan þá er aldrei nokkurn tíma talað um neitt annað en að vernda smáfisk, vernda smáýsu, sérstaklega í síðustu skýrslu, að draga úr veiðum á smáýsu og að friða smáþorsk. Aðgerðirnar hafa orðið til hins gagnstæða. Það er það sem ég er að benda á. Allar tölur Hafrannsóknastofnunar og Fiskistofu benda í þessa átt og það er það sem ég vil fá svör við, hvort hann telji það rétt jafnvel þó að hann hafi ætlað sér annað — og ég vil trúa því að ætlun hans hafi verið önnur en niðurstaðan er — er hann tilbúinn til að endurskoða þessa ákvörðun sína til að reyna að ná fram þeim vilja sínum sem ég vil trúa að hann hafi ætlað sér?