135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

skyndilokanir.

[13:54]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það var enginn misskilningur í því sem ég var að segja. Ég fór einfaldlega yfir það hvernig staðið var að þeirri ákvörðun sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni. Aðdragandinn var sá, svo að ég ítreki það enn og aftur, að þetta var gert að vandlega íhuguðu ráði eftir mjög mikið samráð við Hafrannsóknastofnun og sjómenn.

Ég er stundum sakaður um að það sé ekki tekið nægilega mikið mark á fiskifræði sjómanna en í þessum tilvikum var a.m.k. verið að gera það með því að koma saman og fá fram umræðu milli vísindamannanna og fiskimannanna sem gæti leitt til skynsamlegrar niðurstöðu. Þetta var sú niðurstaða sem fékkst, hún hefur leitt til þess sem ég gerði hér grein fyrir.

Auðvitað er það svo þegar við tökum slíkar ákvarðanir að þær eru ekki óumbreytanlegar og það er sjálfsagður hlutur þegar við förum yfir þetta núna í ljósi reynslunnar að við skoðum þetta með hliðsjón af því sem hv. þingmaður er að segja og með hliðsjón af þeirri reynslu sem hefur fengist, m.a. þeirri reynslu að við erum í þeirri stöðu, gagnstætt því sem menn héldu fram, að við munum ná kvótanum í ýsunni að mati þeirra sem gleggst þekkja til.