135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

olíugjald.

[14:02]
Hlusta

Samúel Örn Erlingsson (F):

Virðulegi forseti. Ég legg fram fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra um hvort hún muni beita sér í að olíugjald á dísilolíu verði lækkað þannig að dísilolía verði aftur ódýrari en bensín. Nú er lítrinn af dísilolíu almennt 10–12 kr. dýrari en lítri af bensíni. Þegar lög um olíugjald voru samþykkt á Alþingi fyrir tæpum fjórum árum, í lok maí árið 2004, lágu m.a. til grundvallar eftirfarandi atriði og rök eins og lesa má í þskj. 1306 frá löggjafarþinginu 2003–2004, með leyfi forseta:

„Með því að hafa verð á dísilolíu ívið lægra en bensínverð má reikna með að dísilknúnar fólksbifreiðar verði ákjósanlegri kostur sem einkabifreiðar.“

Við samþykkt laganna var miðað við að lítri af dísilolíu kostaði rétt um 94 kr. á meðan bensínlítrinn kostaði 100 kr. Bensínlítrinn var sem sé 6 kr. dýrari en olíulítrinn sem nú er 11,3 kr. dýrari, sé miðað við ódýrasta eldsneyti um hádegisbil í dag.

Í röksemdum sérfræðinga til stuðnings frumvarpinu fyrir fjórum árum var fjallað um að meðalfólksbíll með dísilvél eyddi 25–40% minna eldsneyti en bensínbíllinn. Munurinn á útlosun væri þó heldur minni eða að meðaltali um 15% minni. Þá var einnig bent á nýjan útblásturshreinsibúnað dísilvélar sem fjarlægir 90% sótagna úr útblæstri.

Ég spyr því hæstv. umhverfisráðherra: Mun hún beita sér fyrir því að lækka álögur á dísilolíu svo ná megi markmiðum sem eru sameiginleg fjölmörgum Evrópuþjóðum, að frekar séu keyptir og notaðir bílar með dísilvélum til að minnka útlosun koltvísýrings og hvort hún telji ekki skynsamlegt að endurgreiða fyrirtækjum í almenningssamgöngum allt olíugjaldið í stað 70% í sama tilgangi svo efla megi almenningssamgöngur og hvetja þannig til minni bílanotkunar?