135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

olíugjald.

[14:08]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek fyllilega undir með hv. fyrirspyrjanda um að auðvitað er þetta umhverfismál. Það er mjög mikilvægt að setja sér skýr markmið um hvernig við ætlum að draga úr mengun og losun. (Gripið fram í.) Að því erum við að vinna og þess vegna leyfði ég mér að minnast á aðgerðaáætlunina sem kemur fram síðar á þessu ári og verður væntanlega rædd á hinu háa Alþingi.

Þá mun virkilega reyna á forgangsröðunina og markmiðssetninguna. Málið snýst ekki bara um að lækka skatta á tiltekinni tegund véla eða bíla heldur að fækka bílum, minnka bílana og minnka mengunina frá þeim. Það snýst líka um það. Það verður væntanlega, þegar á reynir, svolítið sársaukafull umræða fyrir margan Íslendinginn að horfast í augu við að allt of margir einkabílar eru á Íslandi.