135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[14:40]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Við erum hér í 3. umr. um frumvarp til varnarmálalaga. Mig langar fyrst, úr því að mér gefst tækifæri til, að gera nokkra grein fyrir afstöðu minni í þessu efni m.a. í ljósi einarðrar — að ég segi ekki ofsafenginnar — andstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gegn þessu frumvarpi.

Í 3. umr. er einkum verið að ræða þá pappíra sem fyrir umræðunni liggja, þ.e. framhaldsnefndarálit minni hluta utanríkismálanefndar hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, og eins og fram kom í ræðu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur er það nefndarálit einkum í þremur pörtum. Í fyrsta lagi er þar kvartað yfir óljósum skilum á milli borgaralegrar og hernaðarlegrar eða varnarlegrar upplýsingaöflunar. Í öðru lagi er talað um kostnað, í þriðja lagi er kvartað yfir því að ekki fáist upplýsingar um störf hættumatsnefndar og upplýsingar um reglugerðir sem ekki er búið að setja.

Það má auðvitað lengi tala um kostnað. Mikið er rætt um hann og að verðleikum hér á Alþingi. Ég ætla ekki að skipta mér af þeirri umræðu. Auðvitað er eðlilegt að spyrja um hættumatsnefndina. Ég efast um að hún sé það langt komin að hægt sé að gefa upplýsingar um störf hennar. Ég tel þó að stofnun hættumatsnefndarinnar og þau störf sem þar fara fram séu eitt af því merkilega í utanríkismálum svonefndum í tíð núverandi ríkisstjórnar og núverandi hæstv. utanríkisráðherra.

Við kvörtuðum yfir því á síðasta þingi — og einkum frá því að tíðindin gerðust fyrst, 15. mars 2006, „Et tu, Brute“, eins og sumir nánast endurtóku í tengslum við þann merka dag í sögu Rómar. Við kvörtuðum þá yfir því að ekki færi fram sú rannsókn sem eðlileg væri á varnarþörf Íslendinga á þeim hættum sem Íslandi steðjuðu. Eins og kom fram í frammíköllum hér og viðbrögðum ræðumanns áðan þá fer nú það starf m.a. fram í hættumatsnefnd. Af henni er mikils vænst.

Svo má auðvitað láta eins og við höfum byrjað hér á núllpunkti 15. mars eða í lok september árið 2006, að ekkert hafi gerst áður og við höfum þá í raun og veru tengst nýjum heimi. Svo var raunar ekki, forseti, heldur höfðum við verið í samstarfi í Atlantshafsbandalaginu. Það var fullkomlega eðlilegt að halda því samstarfi áfram meðan við værum í fyrsta sinn í lýðveldissögunni að meta þessa varnarþörf með sjálfstæðum hætti, að sjálfsögðu í samráði við bandamenn okkar í þessu bandalagi og við þær þjóðir sem við treystum og tölum við á alþjóðavettvangi.

Einnig væri eðlilegt að skilgreina hér eins og hægt væri, í fyrsta sinn í lýðveldissögunni, þann rekstur og þá starfsemi sem færu fram í tengslum við þetta samstarf og í kringum hin eiginlegu varnarmál — hér á ég við þætti sem lúta að ytra öryggi — og greina þá frá hinu innra öryggi, frá þeim þáttum sem hvert samfélag þarf að sinna við sjálft sig. Í öðrum ríkjum eru þessir þættir stundum aðgreindir í einhvers konar hernaðar- eða varnarmálaráðuneyti annars vegar og innanríkisráðuneyti hins vegar. Við höfum ekki þau ráðuneyti tiltæk hér og höldum okkur við önnur nöfn á þeim stofnunum sem með þetta fara, nefnilega utanríkisráðuneytið annars vegar og dómsmálaráðuneytið hins vegar.

Ég tel að það sé mikill áfangi, ekki síst fyrir okkur sem höfðum efasemdir um þetta varnarsamstarf meðan það stóð hér áður og fyrir okkur sem höfum alla tíð verið á móti erlendum her í landi og sérstaklega á friðartímum. Ég tel líka að það sé mikill áfangi að koma því þannig fyrir að þeir þættir sem lúta að ytra öryggi skiptist í tvennt. Þar sé annars vegar stjórnsýsla höfð í þessari sérstöku varnarmálastofnun og hins vegar fari stefnumótunin fram í ráðuneytinu sjálfu.

Við sem höfum staðið gegn her í landi höfum ekki síst kvartað yfir hinum gráu svæðum í allri þessari stjórnsýslu og stjórnmálum. Við höfum kvartað yfir því að utanríkisráðherra á hverjum tíma hefur ríkt yfir Keflavíkurflugvelli eins og eins konar jarl. Hann hefur úthlutað þar gæðum og drottnað þar yfir stöðum og störfum og — við skulum tala kurteislega — oft hefur hann verið grunaður, í hvaða flokki sem hann hefur verið — það eru einkum tveir sem koma þar til álita — nánast um pólitíska misbeitingu á því starfi sem þar hefur farið fram. Það sem nú er að gerast við nýjar aðstæður er að þarna er verið að taka til og hreinsa og koma í veg fyrir að þvílíkar grunsemdir vakni á ný.

Um framhaldsnefndarálit hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar ætlaði ég að fara nokkrum orðum og þá kannski einkum um þær spurningar sem þar eru kveiktar um mörk milli hernaðarlegra upplýsinga annars vegar og borgaralegrar upplýsingaöflunar hins vegar eins og ég skil þetta. Þó verð ég að viðurkenna að ég er enginn sérfræðingur, sit ekki í utanríkismálanefnd og hef ekki þá þekkingu sem aðrir hafa hér inni og leggja sinn dóm á þetta.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir vitnaði oft til ríkislögreglustjóra og talaði ákaflega hlýlega um hann. Það er svolítið merkilegt að Vinstri hreyfingin – grænt framboð og ríkislögreglustjóri skuli hafa náð saman og fróðlegt bandalag er að myndast þar á milli. Þessi ríkislögreglustjóri, sérstakur vinur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hefur ósköp einfaldlega það hlutverk að beita sér gegn skipulegri glæpastarfsemi, að beita sér þar sem grunsemdir eru um landráð eða brot gegn stjórnskipun eins og það heitir, og að beita sér gegn hryðjuverkum. Þetta er tiltölulega skýrt. Að einhverju leyti þarf ríkislögreglustjóri að viða að sér upplýsingum um einstaklinga. Ég ætla ekki að fara út í það en það er mjög viðkvæmt mál og þarf að ræða miklu betur en hingað til hefur verið gert. Við viðurkennum að að einhverju leyti þurfi hann á einstaklingsupplýsingum að halda í þessu hlutverki sínu.

Varnarmálastofnun á ekki að gera þetta. Varnarmálastofnun á í rauninni ekki að hafa neinar einstaklingsupplýsingar hjá sér sem ekki eru alls staðar tiltækar. Varnarmálastofnun á að safna upplýsingum um hermál og um hættuástand á svæðinu í kringum Ísland og á öðrum svæðum sem skipta Íslendinga máli. Sérstaklega á hún að safna upplýsingum á þeim svæðum þar sem Íslendingar eru staddir í opinberu hlutverki svo sem í friðargæslu og hins vegar þar sem íslenskir ferðamenn eru fjölmennir eða dvalargestir. Varnarmálastofnun á þá að sjá utanríkisráðuneytinu fyrir þeirri sérþekkingu sem getur hjálpað því til þess að gefa út viðvaranir til ferðamanna og til þeirra sem dveljast í ríkjunum annars vegar og hins vegar til þess að geta stjórnað sínu friðargæsluliði með þeim hætti sem getur talist ábyrgur og í samræmi við þá góðu íslensku venju að etja ekki okkar fólki í útlöndum til átaka.

Ég skil ekki satt að segja hvað er óljóst í þessari verkaskiptingu. En þá tek ég fram aftur að ég er sem sé ekki með sérfræðilega þekkingu á þessu heldur reyni ég að nota mitt almenna meðalvit til þess að greina hér í sundur.

Um kostnaðinn er sjálfsagt að ræða, eins og ég hef áður sagt, og ekkert að því að finna. Það er auðvitað klárt að umfang Varnarmálastofnunar kann að breytast og umfang þeirra starfa sem við ræðum hér og sá kostnaður sem lagt er í kann líka að breytast. Það gerir hann vonandi, einmitt í tengslum við þá vinnu sem nú fer fram í hættumatsnefndinni og víðar og beinist að sjálfstæðu mati okkar á varnarþörf og á hættu hér í kringum landið.

Það er ósköp einfalt að þegar Varnarmálastofnun er komin upp og störf hennar og umfang reynast ekki á rökum reist, þá á að breyta því. Ég treysti þinginu og utanríkisráðherrum framtíðarinnar til þess að gera það. Ef við þurfum minni kostnað til þess eigum við auðvitað að skera hann niður til þess að halda hér ekki uppi óþörfum kostnaði. Það þarf ekki að segja hérlendum alþingismönnum það.

Mér sýnist því þegar ég er búinn að fara í gegnum þessa þrjá þætti — ég læt nú vera þessar reglugerðir sem hafa ekki skrifaðar — að framhaldsnefndarálitið standi varla undir því að þetta mál skuli hafa verið tekið inn til utanríkismálanefndar milli 2. og 3. umr. Það er ágætt að fá þetta allt skýrt og að mönnum gefist kostur á því að tjá sig rækilega um jafnmikilvæga hluti og hér eru á ferðinni.

Ég á ekki mikinn tíma eftir, forseti, en vil bæta þessu við: Í fyrsta lagi. Það er eðlilegt að menn hafi mismunandi skoðanir á veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu. Sjálfur var ég þeirrar skoðunar lengi vel að Ísland ætti ekki að vera í Atlantshafsbandalaginu. Sú skoðun breyttist nokkuð fyrir allmörgum árum raunar og þar kom tvennt til. Annars vegar það að sá sem hér stendur breyttist nokkuð í skoðunum sínum og afstöðu til lífsins og tilverunnar og hins vegar tók Atlantshafsbandalagið líka breytingum. Heimsmynd sú sem mín afstaða forðum daga var tekin í er gjörbreytt og þess vegna styð ég að sinni þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu.

Gamlir félagar mínir í þessari andstöðu, t.d. hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, hafa ekki skipt um skoðun og hafa fullan rétt til þess að halda sinni fyrri skoðun. Þá er rétt að benda þeim þingmanni og öðrum vinum mínum, gömlum og nýjum, á að hér eru einmitt komin þau lög sem þeir gætu numið úr gildi eða breytt varðandi Atlantshafsbandalagið ef þeir færu í þann meiri hluta að þeir tækju ákvörðun um að Ísland gengi úr Atlantshafsbandalaginu og í eitthvað annað eða stæðu utan bandalaga. Þetta hefði verið erfitt áður, vegna þess að afstaða Íslands til utanríkismála og afstaða Íslands og tengsl þess við hernaðarbandalög og -blokkir í heiminum var á gráu svæði.

Einu lögin sem nú gilda um þátttöku Íslands í varnarsamstarfi og um varnir á Íslandi og hið ytra öryggi er varnarsamningurinn gamli frá 1951 sem hefur löggildi á Íslandi. Það er auðvitað staða sem enginn getur unað við, allra síst gamlir fjandmenn Atlantshafsbandalagsins og nýir, að það sé ekki klárt hvaða ákvörðun Alþingi Íslendinga og íslensk stjórnvöld hafa tekið í þessu efni.

Þann tíma sem ég á eftir vil ég nota til tala um það sem ég kalla hér með erlendum tökuorðum „pólitískan kúltúr“. Það er pólitískur kúltúr í hverjum flokki og hverri hreyfingu. Í mínum flokki er að þessu leyti mikil áhersla lögð á árangur, árangur af störfum okkar, að við getum sýnt hann, að við getum náð honum, að við getum mótað stefnu sem leiðir til einhvers.

Í öðrum flokkum, t.d. í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, virðist mér að þessi þáttur í pólitík sé ekki mjög virtur. Í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði þykir mér loða mjög við af þeim gamla minnihlutakúltúr sem ég kannast ágætlega við sjálfur. Hann einkennist af því að menn eigi fyrst og síðast að gæta að sinni hreinu áru, að pússa geislabauginn til þess að geta tekið hann fram við góð tækifæri. Þar á milli beri menn sitt píslarvætti sem ákafast, berji sér á brjóst og þakki fyrir — eins og ágæt saga er af í Biblíunni — að vera ekki eins og hinir og þakki fyrir að hafa ekki komið að verki til þess að hafa þá ekki getað óhreinkað sig á því. Þessu fylgja svo svikabrigsl og landráðatal um það fólk sem í verkunum stendur.

Mér þykir það hugsanlega hafa verið eðlilegt tal hér árið 1949, árið 1951, fram allan sjötta áratuginn og vel á þeim sjöunda og jafnvel á þeim áttunda. En árið 2007 er þetta ekki við hæfi lengur. Það passar hreinlega ekki við þá stöðu sem við Íslendingar erum núna í. Það passar ekki við þá heimsmynd sem núna er uppi, það ástand sem heimurinn hefur tekið á sig hvort sem við vildum það eða ekki, forseti sæll.