135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[14:55]
Hlusta

Frsm. minni hluta utanrmn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er greinilegt að hv. þm. Mörður Árnason kveinkar sér sáran undan því sem hann kallar einarða afstöðu okkar vinstri grænna í þessu máli. Ég kannast ekki við að hafa verið hér uppi með svikabrigsl eða ávirðingar af einu eða neinu tagi. Ég verð nú bara að biðja hv. þingmann að skoða aðeins í hugskot sér betur með það. Eins vil ég hvetja hann til þess að hætta að sjá ofsjónum yfir því þótt mál sé tekið inn í nefnd milli 2. og 3. umr. til þess að óska eftir frekari upplýsingum.

Það er greinilegt að hv. þingmaður telur, ef ég hef skilið orð hans rétt, að þótt hann sé á móti her í landinu sé þetta frumvarp hér mikill áfangi, eins og hann kallar það. Mér heyrðist á honum að það væri allt í lagi að hafa hér uppi hernaðarbrölt og heræfingar erlendra herja bara ef þeir væru ekki staðsettir hér, ef það væri bundið í lögum. Ég er einfaldlega ekki á því máli að þörf sé fyrir að binda slíkt í lög á friðartíma.

Ég tel að meðan verið er að skoða þessa svokölluðu varnarhagsmuni þá eigum við að líta til annarra átta heldur til hernaðarbandalagsins NATO. Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann hvernig honum líst á að taka upp samstarf við Norðurlandaþjóðirnar, Evrópusambandið, norðurskautsþjóðirnar, við smáríki með öflugra starf innan Sameinuðu þjóðanna í öryggisráðinu ef til vill í stað þess að binda bara trúss sitt, eins og hann nú kýs að gera við eitt hernaðarbandalag, NATO.