135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[14:57]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, það er rétt að ekki voru nefnd hér í þessari ræðu svik eða Júdasar eða landráðamenn enda var ekki sagt að um það væri að ræða. Ég var að tala um pólitískan kúltúr og virða hann fyrir mér í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og ég hygg að allir sem á mig hlýða viti hvað ég á við.

Hins vegar var það nefnt í tengslum við þessi lög að hér væri einhver sérstök NATO-væðing á ferðinni eins og með þessu frumvarpi væri verið að binda Ísland nánari böndum við Atlantshafsbandalagið en áður hefur verið. Síðasti ræðumaður sagði í ræðu sinni að verið væri að binda Íslands á klafa NATO. Þetta er svona orðfæri — við skulum orða þetta kurteislega — frá öðrum tíma en nú er uppi.

Svarið við spurningu hv. þingmanns er mjög einfalt: Jú, ég tel að við eigum að gera allt þetta sem hún nefndi. Ég tel að það sé verið að gera það. Ég bendi t.d. á framboð okkar til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem er líka breyting sem fleiri eiga hér aðild að en minn flokkur sem betur fer. Með því framboði er nú einmitt verið að rífa sig úr ákveðnu fari, rífa sig burt frá ákveðinni minnimáttarkennd og ákveðnum böndum sem menn hafa hingað til bundið utanríkisstefnuna í.

Ég tel því að verið sé að gera þetta allt saman en það þarf líka að sjá fyrir því að á meðan við erum í þessu varnarsamstarfi — sem ég tel nú ekki hægt að telja beinlínis hernaðarbandalag lengur vegna þess að það þarf þá að vera einhver andstæðingur hernaðarbandalagsins, þetta er varnar- og öryggissamstarf — þá eigum við að standa við skyldur okkar í því efni. Við eigum að haga þeim málum þannig að þau fái rökrétta málsmeðferð og sé rökréttur hluti af íslenskri löggjöf og stjórnskipan.