135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[15:00]
Hlusta

Frsm. minni hluta utanrmn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Minnimáttarkennd, það er merkileg einkunn sem hv. þm. Mörður Árnason kýs að gefa þeirri afstöðu að standa einarður, eins og hann nefndi það sjálfur, gegn her í landi og gegn aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Ég lít ekki svo á að það sé fylgifiskur neinnar minnimáttarkenndar, það er það ekki í mínu tilviki. Það væri frekar að það væri metnaðarfullt að ætla sér það hlutverk í þessum heimi að leggja frekar lóð á vogarskálar friðar og afvopnunar en að binda sig fastan, hvaðan svo sem það er í tímanum, hv. þingmaður, við hernaðarbandalag.

Ég kom því ekki að í fyrra andsvari mínu hér áðan að hv. þingmaður virðist halda að heimurinn sé svart/hvítur, að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs geti ekki verið sammála einhverjum eins og ríkislögreglustjóra um eitthvert tiltekið atriði sem fram kemur í athugasemdum sem lagðar eru inn í nefnd. Það er alvanalegt, hv. þingmaður, sem hann á að vita eftir nokkuð langa þingsetu, að menn geta verið sammála því sem fram kemur í athugasemdum.

Ég finn að það svíður undan því sem hv. þingmaður kallaði einarða afstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessum efnum og það svíður undan þessu orði NATO-væðingu. (Gripið fram í.) Ég dró það skýrt upp hvað í henni felst, hv. þingmaður, og ég get ekki fundið annað orð betra (Forseti hringir.) yfir þá stefnubreytingu sem hér er að verða þegar ríkiskassinn er opnaður til þess að halda uppi her á friðartímum