135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[15:04]
Hlusta

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Senn líður að því að 3. umr. um þetta mál sé lokið. Ég held það megi segja að við höfum, í vinnu þingsins, fengið mjög góða yfirsýn yfir þau atriði sem þurftu að koma til sérstakrar skoðunar. Ég geri engan ágreining um það við minni hlutann í utanríkismálanefnd að gæta þarf að kostnaði við málið. Háar fjárhæðir fara til hinnar nýju stofnunar sem komið er á fót með frumvarpinu. Það er jákvætt og gott innlegg af hálfu minni hlutans að benda á að gæta þurfi að því að kostnaður við rekstur stofnunarinnar fari ekki umfram það sem við getum sætt okkur við nú þegar í upphafi.

Skoðun nefndarinnar hvað það atriði snertir hefur hins vegar leitt í ljós að brugðist hefur verið við með mjög skynsamlegum hætti og mjög ákveðin vinnubrögð hafa verið viðhöfð til að tryggja lágmarkstilkostnað. Lagt var upp með það í haust að íslensk stjórnvöld mundu taka yfir rekstur ratsjárstöðvanna með minni tilkostnaði en fyrir lá að bandaríski herinn hafði haft af þeim rekstri á þeim tíma sem hann bar ábyrgð á ratsjárstöðvunum og rekstri þeirra.

Í heildina snýst málið um að ramma inn framkvæmdarleg atriði sem tengjast þeim verkefnum sem við tökum yfir við brotthvarf varnarliðsins. Það má svo sem halda því fram hér í umræðunni, sem minni hluti nefndarinnar hefur gert og talsmenn Vinstri grænna, að heppilegra hefði verið að hættumatið hefði legið fyrir á þeim tímapunkti sem við tökum verkefnin yfir. Ekki er annað hægt en vera sammála því, það er mjög auðvelt að færa gild rök fyrir því að það hefði verið heppilegra. En þetta er sá veruleiki sem við stöndum frammi fyrir. Veruleikinn er sá að bandaríski herinn fór óvænt, með skömmum fyrirvara og kom fram af mikilli ósanngirni og óbilgirni í tengslum við viðskilnaðinn við varnarstöðina í Keflavík.

Þannig fékk utanríkisráðuneytið og ríkisstjórnin í fangið mjög stórt verkefni með skömmum fyrirvara og var m.a. leitað til Atlantshafsbandalagsins, m.a. leitað ráðgjafar hjá NATO, varðandi þau atriði sem sneru að vörnum landsins, hvernig ætti að bregðast við. Tekin var ákvörðun um að halda áfram rekstri ratstjárstöðvanna og þegar öllu er á botninn hvolft tel ég að það hafi verið skynsamlegt, og í raun og veru eini valkosturinn. Ég held að jafnframt hafi verið skynsamlegt að setja af stað það hættumat sem nú er verið að framkvæma. Við erum ekki að taka neinar ákvarðanir í þessu máli sem við þurfum að búa við til allrar framtíðar en við erum að koma í farveg öllum þeim verkefnum sem við þurftum að taka yfir með skömmum fyrirvara, öxlum núna ábyrgð á, og ég skynja ekki annað í umræðunni um frumvarpið og í umræðunni um breytta stöðu við brotthvarf varnarliðsins frá Keflavíkurflugvelli en að ágætissátt sé um það hér á þinginu að við þurfum að fara að axla meiri fjárhagslegar byrðar af veru okkar í Atlantshafsbandalaginu. Þau fjárframlög sem eru komin í fjárlög og tengjast rekstri þessarar nýju stofnunar bera það með sér að við erum að taka á okkur umtalsvert meiri fjárhagslegar skuldbindingar en við höfum haft af veru okkar í Atlantshafsbandalaginu hingað til. En ég held að við höfum samt sem áður ekki undan miklu að kvarta í þeim efnum.

Ég held að það sé líka of mikið sagt að í tengslum við Varnarmálastofnun sé líklegt að við sjáum fram á kostnað innan fárra ára upp á þrjá, fjóra eða fimm milljarða, ég held að það sé ofmat. Mér finnst það ekki málefnalegt innlegg í umræðuna að slá því fram án þess að fylgja því eftir með neinum haldbærum rökum að kostnaðurinn við þessa stofnun muni hlaupa á mörgum milljörðum.

Það er einfaldlega verið að færa undir eina stofnun framkvæmdarlegu atriðin sem tengjast veru okkar í Atlantshafsbandalaginu og eru ekki borgaralegs eðlis, eru ekki á sviði og í höndum lögreglunnar og tengjast ekki með öðrum hætti almannavörnum okkar Íslendinga. Að hluta til er verið að færa þau verkefni út úr utanríkisráðuneytinu alveg eins og Vegagerðin er ekki inni í samgönguráðuneytinu heldur sérstök stofnun. Ég tel þetta skynsamlegt og reyndar bráðnauðsynlegt til þess að geta átt eðlileg samskipti um framkvæmdarleg atriði í tengslum við varnarmál.

Margt af því sem tekið er til umfjöllunar í þessu máli og lýtur að upplýsingaöflun, úrvinnslu upplýsinga og meðferð gagna, eru atriði sem þegar er verið að vinna að í utanríkisráðuneytinu. Ekki er verið að búa til ný verkefni með frumvarpinu eins og látið hefur verið liggja að í umræðunni í dag. Mikilvægt er að fram komi að verið er að færa verkefni sem þegar er verið að vinna að, til að mynda varðandi hættumat á svæðum þar sem við erum með friðargæsluliða eða vitað er að íslenskir ríkisborgarar eru — sú vinna er þegar unnin að hluta til í utanríkisráðuneytinu og þar er jafnframt upplýsingagrunnur sem unnið er með en verið er að færa yfir til þessarar stofnunar. Í tengslum við það atriði er því ekki ástæða til þess að láta að því liggja að við séum að búa til einhver sérstök ný verkefni og pakka því síðan inn og kalla það einhverja NATO-væðingu eða hervæðingu nýrrar stofnunar. Það er algert rangnefni, með því er ryki slegið í augu fólks og málið slitið úr samhengi.

Í grunninn er þetta í sjálfu sér mjög tæknilegt mál, kannski miklu meira tæknilegt en efnislegt. Verið er að setja lagalega umgjörð um verkefni sem við að stórum hluta til sinntum áður en erum að taka yfir í tengslum við brotthvarf varnarliðsins. Og hver ætlar að fara að halda því fram að það sé óskynsamlegt? Við getum rætt um það hvort skynsamlegt sé að vera í Atlantshafsbandalaginu eða ekki. En að því gefnu að ekki stendur til að draga okkur út úr því samstarfi hver ætlar þá að halda því fram að óskynsamlegt sé að fara að ramma samstarf okkar við Atlantshafsbandalagsríkin inn í sérstakt lagafrumvarp? Er til að mynda skynsamlegra að halda öllum þessum verkefnum áfram í utanríkisráðuneytinu? Auðvitað er það ekki þannig. Það er skynsamlegt að koma þessum verkefnum fyrir á einum stað og það er líka skynsamlegt að koma því fyrir í þessu lagafrumvarpi hvar línurnar liggja á milli þessarar nýju stofnunar og lögreglunnar í landinu og annarra þeirra sem gæta að almannavörnum.

Er þetta það eina sem við erum að gera í tengslum við brotthvarf varnarliðsins? Nei, það er langt frá því. Það er verið að styrkja Landhelgisgæsluna. Nýlega var verið að leggja kjölinn að nýju skipi fyrir Landhelgisgæsluna, þar erum við með eitt lítið dæmi. Við erum í samstarfi við Norðmenn um þyrlukaupin, það er verið að styrkja þyrluflota landsmanna eftir brotthvarf varnarliðsins — við nutum auðvitað aðgangs að þyrlum Bandaríkjamanna sem í áranna rás hafa bjargað fjölmörgum mannslífum við strendur landsins — það er önnur aðgerð sem sérstaklega er verið að grípa til í tengslum við brotthvarf varnarliðsins. Við höfum gert sérstakt samkomulag um samstarf á höfunum og í varnartengdum málefnum, bæði við Danmörku og Noreg, eins konar rammasamninga sem við eigum síðan eftir að fylla inn í í rás tímans með fjárveitingum og eftir því sem hentar báðum aðilum. Það er því verið að gera fjölmargt annað og í raun er merkilegt hve miklum árangri við höfum náð á skömmum tíma með litlum fyrirvara sem við höfðum til þess að bregðast við brotthvarfi varnarliðsins.

Annað mætti nefna, það kemur reyndar fram í frumvarpinu sjálfu, sem lýtur að heræfingunum og tímabundinni veru loftvarnasveita hér á landi í samræmi við samkomulag sem næst við aðildarríki Atlantshafsbandalagsins, sem að nokkru kemur í staðinn fyrir stöðuga viðveru orrustuþotna Bandaríkjamanna sem lengi framan af voru ásteytingarsteinninn í viðræðum við þá. Ég held það megi gefa sér það að við munum áfram hér á þinginu — og ég held að full ástæða sé til — ræða um það hversu margar heræfingar er eðlilegt að fari fram á Íslandi. Hvað ætlum við að kosta miklu til til þess að stunda heræfingar á Íslandi? Að hve miklu leyti erum við að mæta óskum frá aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins, sem þurfa m.a. að eiga aðgang að landsvæðum þar sem þeir geta farið í lágflug og annað þess háttar, með því að láta varnaræfingarnar fara hér fram? Og að hve miklu leyti erum við að fylla inn í æfingaþörfina sem er til staðar til þess að á hverjum tíma sé tiltækt lið til að bregðast við aðsteðjandi hættum sem upp geta komið á Íslandi? Mér finnst eðlilegt að sú umræða verði árlegur viðburður, geti hvenær sem er átt sér stað hér á þinginu og henni verður auðvitað ekkert lokið með þessu frumvarpi.

Það sama á jafnvel líka við um loftvarnasveitirnar sem við höfum náð samkomulagi um að komi hingað með reglulegu millibili — ef ég man rétt munu Frakkar koma hingað seinna í mánuðinum með fyrstu sveitina sem hefur hér tímabundna viðveru. Allt er þetta til þess að sýna samstöðuna sem við njótum sem meðlimir í Atlantshafsbandalaginu en á sama tíma er mikilvægt fyrir hlutaðeigandi ríki að geta komið hingað og verið með æfingar. Það liggur alveg fyrir að við munum hafa af veru þessara ríkja, sveita þeirra, talsverðan kostnað og við munum áfram í tengslum við fjárlög og í tengslum við varnarmálaumræðuna á Íslandi þurfa að ræða það nánar hversu miklum fjármunum við erum tilbúin til að verja í þessum tilgangi, vegna þess að við höfum auðvitað aðra valkosti. Við höfum þá valkosti að vera virkir þátttakendur í Atlantshafsbandalaginu með ýmsum öðrum hætti og það erum við bæði í friðargæslu og víða annars staðar. Menn þekkja dæmin um farsæla stjórn okkar á flugvöllum bæði í Pristína og í Kabúl. Þar komum við að málum þar sem nánast frá grunni þurfti að færa flugvelli úr herstjórn yfir í borgaraleg not og við höfðum mannskapinn og þekkinguna og getuna til þess að framkvæma það verkefni. Þar vorum við að kosta einhverju til, þar vorum við að leggja bandamönnum okkar í Atlantshafsbandalaginu lið, taka þátt í mikilvægum verkefnum með tilkostnaði og við munum stöðugt þurfa að velta því fyrir okkur hvar við ætlum að forgangsraða í þessu tilliti.

Það breytir því ekki að þetta er fyrst og fremst tæknilegt mál sem rammar inn framkvæmdarleg atriði sem við stöndum frammi fyrir eftir brotthvarf varnarliðsins. Ég verð að segja að miðað við þann skamma fyrirvara sem við höfðum í málinu, og miðað við það hversu stórt verkefni þetta er í raun, held ég að okkur hafi tekist vel til bæði við undirbúning málsins — og vil ég þakka sérstaklega fyrir það að í frumvarpi til varnarmálalaga er mjög góð greinargerð sem lýsir öllum aðdraganda málsins ítarlega. Ég held að það hafi verið mjög mikilvægt, bæði fyrir vinnu utanríkismálanefndar og fyrir umræðuna hér á þinginu, að allur aðdragandi var skilmerkilega tekinn saman í málinu sjálfu. Ég held að vel hafi tekist til við að undirbúa málið og ég held líka að við höfum farið ofan í öll þau atriði sem mestu skipta hér á þinginu. Við gáfum okkur tíma til þess og breytingar utanríkismálanefndar eru til vitnis um það, við erum t.d. að fresta gildistöku frumvarpsins frá því sem lagt var upp með. Það er vegna þess að við höfðum þörf fyrir að vinna málið í visst langan tíma, enda hefur því svo sem ekki verið haldið fram hér að málinu hafi verið hraðað sérstaklega í gegnum þingið en ýmis atriði hafa verið til umfjöllunar.

Ég geri í sjálfu sér enga athugasemd við að frumvarpið skuli hafa komið aftur inn í nefnd milli 2. og 3. umr. en framhaldsnefndarálit minni hluta utanríkismálanefndar er til vitnis um að örfá atriði stóðu út af. Einungis var verið að fara aftur ofan í nokkur atriði með ráðuneytinu, nokkur framkvæmdarleg atriði, og geri ég enga athugasemd við að við höfum gefið okkur tíma til þess. Við funduðum í eitt skipti og niðurstaðan er áfram sú sama, einhver ágreiningur er á milli meiri hluta og minni hluta.

Er auðvelt að draga skýra línu á milli hernaðarlegra verkefna og þeirra sem borgaraleg eru eins og er tilgangur og markmið þessa máls? Nei, það er ekki auðvelt mál, það er ekki alveg einfalt verkefni. Við komum inn á það í nefndaráliti meiri hlutans að það er kannski ívið erfiðara verkefni en í fyrstu mætti ætla. Auðvitað verður einhver skörun en við alla meðferð málsins í nefndinni kom mjög skýrt fram að að svo miklu leyti sem borgaralegar stofnanir, ríkislögreglustjóri eða aðrir, hafa til að mynda komið að nefndarstarfi á vegum Atlantshafsbandalagsins er ekki verið að leggja til neinar breytingar í þessu máli hvað það snertir. Ekki er verið að taka af þeim stofnunum einhver verkefni sem þær hafa verið að sinna hingað til. Menn eru engu að síður að reyna að draga línurnar til þess að skilin séu skýr og að einhverju marki mun þetta á endanum eflaust liggja í því hversu góður samstarfsvilji er á milli þessara aðila.

Við skulum nefna það þegar heræfingar fara hér fram. Ef kalla þarf til löggæslu eða Landhelgisgæslu — ef til stendur að þeir þurfi að vera til taks með einhverjum hætti án þess að vera beinir þátttakendur í heræfingum, sem er ekki ætlunin — reynir í þeim samskiptum, eins og í öllum öðrum samskiptum á milli ríkisstofnana, á að menn séu tilbúnir til að eiga gott samstarf. Ég held að lagaramminn um starfsemi þeirra sé alveg nægilega skýr og frumvarpið valdi þar ekki neinum misskilningi. Það kemur enda skýrt fram í 1. gr. frumvarpsins að lögin taka ekki til verkefna stjórnvalda sem eru borgaraleg í eðli sínu, svo sem löggæslu og almannavarna. Þegar af þeirri ástæðu getur ekkert í frumvarpinu breytt í neinu efni þeim verkefnum sem þeim er falið að sinna.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna meira en orðið er. Ég kem fyrst og fremst hingað upp til að lýsa þeirri skoðun minni að ég held að við höfum velt við flestum steinum sem þurfti að kíkja undir í tengslum við þetta mál. Ég held að óumflýjanlegt hafi verið að færa þau verkefni sem við fjöllum hér um inn í sérstaka stofnun. Ég ætla ekki að gera lítið úr áhyggjum þeirra sem hafa áhyggjur af kostnaðinum við þá stofnun sem við erum að koma á fót. Við þurfum að fylgjast vel með því hvernig hann kemur til með að þróast og gæta að því að við förum ekki fram úr okkur þar. Það á við um þessa stofnun eins og allar aðrar.

Að öðru leyti held ég að við höfum, með þeim breytingum sem meiri hluti nefndarinnar hefur nú þegar lagt til, og voru samþykktar hér eftir 2. umr., komið til móts við flest þau sjónarmið sem komu fram frá umsagnaraðilum, m.a. til þess að draga úr hættunni á misskilningi vegna orðavals og snertu það sem ég hef aðeins gert að umtalsefni, nefnilega skilin á milli borgaralegra verkefna og þeirra sem eru hernaðarleg í eðli sínu. Það er síðan sérstakur þáttur, sem ég ætla ekkert að fara nánar út í hér, hvernig samskipti þessarar stofnunar eru við viðbragðsaðila sem við treystum á að bregðist við ef þær aðstæður kunna að skapast í framtíðinni og með hvaða hætti þeir munu síðan koma hingað og taka yfir stjórnina ef þær aðstæður koma upp. En að langmestu leyti munu verkefni þessarar stofnunar, eins og fram kemur í frumvarpinu sjálfu, felast í því að taka yfir það sem áður var verið að vinna að í Ratsjárstofnun. Að svo mæltu lýk ég máli mínu, virðulegi forseti.