135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[15:27]
Hlusta

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held í sjálfu sér að það hafi ekki verið kostur í þessu máli að koma á fót ríkisstofnun til bráðabirgða. Við erum einfaldlega að koma rekstri ratsjárstöðvanna fyrir með varanlegum hætti og þeim framkvæmdalegu atriðum sem lúta að aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu. Það eru m.a. atriði sem tengjast heræfingum, sem tengjast úrvinnslu upplýsinga sem við höfum aðgang að í gegnum upplýsingakerfin og komu eða stöðu okkar sem gistiríkis við komu erlendra herja hingað til þess að gegna tímabundnu eftirliti með lofthelginni og þá er engin ástæða fyrir okkur til þess að ætla að þetta gæti ekki verið frambúðarfyrirkomulag.

Við erum ekki að setja þetta í stjórnarskrá. Þetta eru bara lög eins og hver önnur lög. Ef menn finna einhverja betri leið til þess að sinna þessum verkefnum í framtíðinni þá getum við einfaldlega breytt þeim lögum. Það var það sem ég átti við.

Hins vegar held ég að það skipti mestu í þessu máli að þrátt fyrir þann skamma fyrirvara sem við fengum til þess að huga að öllum þessum atriðum þá hafi okkur tekist vel til. Það hefur tekist vel til við að koma verkefnunum fyrir og ég held að það hafi verið skynsamlegt að segja upp öllum starfsmönnum Ratsjárstofnunar, koma öllum verkefnum fyrir í nýrri stofnun og leita allra leiða til þess að lágmarka tilkostnaðinn við yfirtöku þeirra. Það verður viðvarandi viðfangsefni þessarar stofnunar að lágmarka tilkostnað við framkvæmd þessara verkefna, eins og hjá öðrum stofnunum.