135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[15:29]
Hlusta

Frsm. minni hluta utanrmn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel alls ekki að það hafi tekist vel til að öllu leyti hér, alls ekki, og því hlýt ég að spyrja hv. formann utanríkismálanefndar: Hvernig verður að hans mati best brugðist við þegar niðurstaða hættumatsnefndar liggur fyrir?

Við skulum segja að hún leiði í ljós að við þyrftum ekki endilega að halda hér uppi þessu loftrýmiseftirliti. Við skulum reikna með að hún leiði í ljós að við þyrftum ekki að hafa hér heræfingar á friðartímum. (MÁ: Þá hættum við því.) Við skulum reikna með að hún leiði í ljós að þeim fjármunum væri betur varið. Hvernig halda menn og hv. þingmaður formaður utanríkismálanefndar að viðbragðið verði?

Það sem ég meinti og vildi leggja áherslu á var alls ekki að fara að setja einhverja stofnun á fót til bráðabirgða, langt í frá. Ég tel að það sé ekki nein sú kvöð sem kallar á það að þessi gerningur verði lögfestur núna, alls ekki. Það eru margir lausir endar í þessu en þó sérstaklega hættumatið.

Ég vil rifja hér upp að við 2. umr. málsins var gerð tillaga um að vísa málinu aftur til ríkisstjórnar, m.a. með þeirri röksemd að hættumatið lægi ekki fyrir. Það hefði að mínu viti verið skynsamlegasta leiðin.

Ameríski herinn fór héðan 20. september 2006. Nú er nákvæmlega miður apríl 2008. Það er rétt sem hér er sagt að gildistökuákvæðinu hefur verið ýtt aðeins fram í tímann. Ég tel að það hefði átt að leggja ríkari áherslu á að klára hættumatið og bregðast við því mati en ekki að gefa sér hlutina fyrirfram, t.d. að það sé einhver óvinur einhvers staðar úti í heimi og þess vegna þurfum við að leyfa mönnum að æfa sig í hernaði, á okkar kostnað, til þess að berjast við hann.