135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[15:55]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Björn Valur Gíslason er í andsvari við mig en eyddi nú mestu púðri á hv. þm. Mörð Árnason, sem ég geri ráð fyrir að geti svarað fyrir sig sjálfur. Sú lýsing hjá hv. þingmanni, að ekki væri verið að lögbinda NATO-aðild, að ekki væri verið að lögbinda heræfingar á Íslandi og ekki væri verið að gera hér neina eðlisbreytingu á því ástandi sem nú er við lýði, var rétt, hún var rétt. Síðan kom hann og lagði út af því með allt öðrum hætti.

Ég gat um það hér áðan að við hefðum undirgengist þjóðréttarlega skuldbindingu um aðild okkar að NATO árið 1949. Þegar Vinstri grænir koma hér og tala um NATO-væðingu og tala um hernaðarvæðingu í ljósi þess að herinn fór úr landi árið 2006 þá eru það auðvitað algjör öfugmæli. Þetta eru algjör öfugmæli og ekki er hægt að lesa í þessi öfugmæli þeirra og þá stimpla sem þeir hafa hér á lofti gagnvart öllum öðrum sem taka hér þátt í stjórnmálum sem neina vísbendingu um það að þeir vilji yfirleitt einhverja samvinnu eða sátt í þessum málaflokki, alls ekki.