135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[15:58]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt að með þessum lögum er ekki verið að lögbinda heræfingar og það er rangt að halda því fram. Það sem er verið að setja í lög er hvernig með skuli farið og hvernig haldið skuli utan um heræfingar ef þær fara fram í landinu. Það er síðan sjálfstætt mat stjórnvalda á hverjum tíma hvort þau telji þörf á því eða ekki.

Þó að hv. þingmaður vitni í greinargerð með frumvarpinu er í greinargerðinni verið að setja fram skoðun á málinu, ekki er verið að lögbinda neinar æfingar. Þær geta þess vegna verið þrjár, þær geta verið fjórar, þær geta verið ein, þær geta verið engin. En ef þær eru haldnar skal farið með þær samkvæmt þessum lögum og það er það sem þetta gengur út á.

Það hlýtur að teljast af því réttarbót fyrir þingmenn, fyrir sveitarstjórnarmenn og fyrir almenning í landinu að menn viti hvaða lagarammi gildir um þetta eins og annað og að til séu lög um þá starfsemi sem tengist veru okkar í NATO og hún sé aðskilin annarri borgaralegri starfsemi í landinu. Við gerum almennt þá kröfu til m.a. þriðja heims ríkja að þau aðskilji vel innri löggæslu sína og síðan varnartengd verkefni. Það er ein af þeim kröfum sem yfirleitt er höfð uppi og talin til marks um það hvort um þróað lýðræðisríki er að ræða eða ekki. Þá hljótum við að gera þá sömu kröfu til okkar að þessi aðskilnaður sé fyrir hendi og lagaramminn sé til staðar þannig að hægt sé að hafa meira eftirlit með þessari starfsemi en nú er.