135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[16:10]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ekki var það ætlun mín að fara í sjálfu sér í efnisleg andsvör við ræðu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur, hennar afstaða hefur lengi legið klár fyrir í þessum málum. Ég verð einnig að viðurkenna að ég er ekki öllum hnútum kunnugur varðandi forsögu málsins hér á þinginu, hvorki nú í vetur né ef litið er lengra aftur í tímann.

Það vakti hins vegar athygli mína að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir orðaði það einhvern veginn með þeim hætti að Samfylkingin hefði nánast tekið við þessu máli úr hennar hendi, úr utanríkisráðuneytinu, og væri að klára það hér og nú. Hefði sem sagt tekið við keflinu og væri að ljúka máli sem Framsókn hefði ekki náð að klára á þeim tólf árum sem sá flokkur var með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn — og munar þá um afköstin ef þetta er að gerast hér og nú. Ég gat ekki betur heyrt á málflutningi hv. þm. Marðar Árnasonar en að stefna Samfylkingarinnar hefði hreinlega aldrei breyst, að Samfylkingin hefði nánast alltaf í hjarta sínu verið sammála því sem utanríkisráðherra Framsóknar hefði lagt áherslu á í utanríkisráðuneytinu á undanförnum árum, í það minnsta hvað þetta varðar. Hv. þm. Mörður heldur þá bara áfram að kalla fram í ef hann vill staðfesta þessi orð mín.

Mig langar að ljúka máli mínu með því að beina spurningu minni til Valgerðar út af orðum hennar: Lítur hún þannig á að hér sé verið að klára mál sem nánast var frágengið í utanríkisráðherratíð hennar í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn sem lauk á síðasta ári? Er hér meira og minna verið að setja lokapunktinn á hennar verk og Framsóknarflokksins?