135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

fiskeldi.

530. mál
[16:26]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa ánægju með að þetta frumvarp er komið fram. Mér sýnist að það sé þesslegt að óhætt sé óhætt að styðja það. Þó vil ég hafa einhvern fyrirvara á því þar sem ég hef ekki kynnt mér málið til hlítar. Það munum við gera að sjálfsögðu í hv. nefnd.

Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu um 1. gr. segir, með leyfi forseta:

„Markmiðið með setningu sérstakra laga um fiskeldi er, svo sem nánar kemur fram í greininni, að skapa skilyrði til uppbyggingar fiskeldis og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu.“

Þetta er ekki svo lítið sagt þannig að að því leyti til tel ég gott að þetta frumvarp sé fram komið fyrir utan það að eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra snýst málið kannski heilmikið um það líka að einfalda stjórnsýslu og koma málum þannig fyrir að auðveldara verði að innleiða gerðir núna eftir að þessi tvö ráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti, hafa verið sameinuð, en áður tilheyrðu vatnafiskarnir landabúnaðarráðuneyti og sjávarfiskar í fiskeldi hins vegar sjávarútvegsráðuneyti. Að því leyti til tel ég því að þarna geti verið hægt að koma á skilvirkari stjórnsýslu og það er náttúrlega alltaf til bóta.

Síðan, eins og ég nefndi áðan, er gott að sjá á prenti frá hæstv. ráðherra þetta ákvæði sem kemur fram í 1. gr. um mikilvægi þess að efla fiskeldi. Einhvern tíma hef ég haft orð á því við hann að mikilvægt sé að efla ekki síst þorskeldið núna þegar dregið hefur svo mjög úr þorskveiðum. Þar höfum við mikla möguleika, ekki síst vegna þess að við þekkjum markaðinn og eigum sambönd í sambandi við markaðinn sem er hægt að nýta líka í þorskeldinu. Ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra hvað sé að frétta af því máli þar sem liðnir eru nokkrir mánuðir síðan við töluðum um þetta síðast á hv. Alþingi. Ég veit að nefnd hefur verið að störfum og hún hefur meðal annars kynnt sér hvernig nágrannaþjóðir okkar hafa farið í þetta mál. Ég vil spyrja hann hvort þess sé að vænta að ríkisvaldið komi eitthvað frekar að þorskeldismálum en hefur verið. Það hefur verið í smáum skömmtum frekar fram til þessa. Eins og þetta hefur verið hér á landi er um að ræða áframeldi annars vegar þar sem hæstv. ráðherra hefur haft ákveðinn kvóta eða ákveðna möguleika á úthlutun, 500 tonnum í áframeldi. Síðan er náttúrlega það sem ekki er síður spennandi, þ.e. aleldið. Norðmenn eru með miklar hugmyndir um að fara í mikið þorskeldi og gera sér jafnvel vonir um að það geti orðið jafn öflugt og laxeldið. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að taka þetta dálítið alvarlega hérna og að ríkið þurfi að minnsta kosti að gefa það út að það sé jákvætt gagnvart þessari atvinnugrein. Ég hef spurt líka hér í þessum ræðustóli hvort til greina komi að ríkið kæmi með þeim útgerðarfyrirtækjum sem hafa sýnt þessu máli áhuga að því að byggja upp seiðaeldisstöð, því að það hefur komið fram hjá þeim sem eru í greininni að það sé raun flöskuháls í þessari starfsemi allri saman.

Hæstv. ráðherra orðaði það þannig þegar við töluðum um þetta síðast að hann vildi helst ekki tala um neitt gullgrafaraæði í þessu heldur fara af skynsemi í málin og það er náttúrlega alltaf rétt að gera það. Engu að síður finnst mér að ríkisstjórnin og ráðuneytið þurfi að sýna verulegt lífsmark og ég er forvitin að heyra hvað hæstv. ráðherra hefur að segja í seinni ræðu sinni um það hvort það sé ekki þannig að við séum að færast eitthvað nær því að geta talað um þetta sem alvöru atvinnugrein á Íslandi.