135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

fiskeldi.

530. mál
[17:06]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær góðu viðtökur sem þetta frumvarp hefur fengið í efnislegri umræðu. Ég hygg að þær endurspegli fyrst og fremst að það er almenn skoðun að skynsamlegra sé að skipa öllu fiskeldi í ein lög eins og við höfum gert hingað til. Tækifærið sem við höfum fengið til að gera þessar breytingar er þess vegna kærkomið og, að ég hygg, mjög í samræmi við vilja hv. þingmanna þó að auðvitað hljóti menn, sem eðlilegt er við 1. umr., að setja fyrirvara um eitthvað sem kann að breytast við meðferð málsins. Það er ljóst eins og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði að þetta mun einfalda stjórnsýsluna og það er hluti af því markmiði sem við höfum sett með frumvarpinu.

Hv. þingmaður spurði mig jafnframt hvað væri að frétta af þeirri vinnu sem farið hefði fram undir forustu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins varðandi þorskeldið. Það er því miður ekki komin niðurstaða í starf þeirrar nefndar sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni. Nefndin vinnur hins vegar hörðum höndum og ég get ekki fullyrt á þessari stundu hvenær hún mun skila áliti sínu en það verður vonandi fyrr en síðar. Þar sitja að verki miklir sérfræðingar og fulltrúar úr atvinnulífinu og ég hef lagt á það mikla áherslu að í þessum efnum verði atvinnulífið að draga vagninn þó að vitaskuld hafi ríkisvaldið þar hlutverki að gegna.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hvatti til þess að hlustað yrði á þá sem í greininni starfa og undir það tek ég. Ég geri ráð fyrir því að þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fær þetta mál til meðhöndlunar muni hún kalla til sín — eða a.m.k. kalla eftir sjónarmiðum úr greininni. Ég veit ekki annað en að innan greinarinnar sem þetta mál varðar sé ágæt samstaða um frumvarpið eins og það er lagt fram.

Hv. þingmaður spurði líka og vék að ákvæðum varðandi takmörkun á fiskeldi á svæðum þar sem líffræðileg rök hníga að því. Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að auðvitað verða menn að fara mjög varlega þegar verið er að taka ákvarðanir um staðsetningu á fiskeldisstöðvum og við verðum að taka tillit til náttúrunnar í þeim efnum. Það hafa verið í gildi ákvæði sem gefa ráðuneytinu færi á að banna fiskeldi við sérstakar aðstæður. Þau ákvæði eru í rauninni tekin hér upp lítt breytt í 6. gr. frumvarpsins þar sem gefin er heimild til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að fenginni umsögn þeirra sem glöggt ættu að vita, að takmarka eða banna fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í einstaka fjörðum o.s.frv. Það hefur auðvitað verið gert. Við þekkjum að ekki er heimilt að stunda laxeldi t.d. við Húnaflóa eða Faxaflóa og ástæðurnar eru þær sem hv. þingmaður vék að. Ég held að bærilega sé fyrir því séð í þessari grein.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson vék að nokkru leyti að svipuðu efni í máli sínu þegar hann hvatti til þess að áður en hafist væri handa við fiskeldi lægju fyrir nægilegar rannsóknir sem gæfu okkur þá vissu áður en við gæfum út rekstrarleyfi til fiskeldisstöðva. Í III. kafla þessa frumvarps eru einmitt mjög ítarleg ákvæði um hvernig farið skuli að þegar verið er að taka ákvörðun um útgáfu rekstrarleyfis. Ég sé það og það er auðvitað ljóst mál að þar þurfa menn að leita margvíslegra upplýsinga þannig að ég held að það sé fyrir flestar víkur róið í þessum efnum. Það þarf að fá umsögn Matvælastofnunar, Veiðimálastofnunar og Hafrannsóknastofnunar og síðan eru ýmis fleiri ákvæði sem eiga að tryggja að rekstrarleyfið sé byggt á mjög efnislegum forsendum. Þetta er líka mjög í samræmi við gildandi lög í þessum efnum og í raun og veru er ekki verið að víkja mikið frá núgildandi lögum.

Hér var aðeins gerð að umtalsefni 22. gr. þessa frumvarps þar sem kveðið er á um refsingar. Varðandi þær vil ég einungis segja og vekja athygli á því sem segir í athugasemdakaflanum að þetta ákvæði er í samræmi við sömu grein laga nr. 57/2006, um eldi vatnafiska, með síðari breytingum. Við notuðum þau lög til grundvallar þegar verið var að semja þetta frumvarp. Þetta eru nýjustu lögin og þess vegna var þetta ákvæði sérstaklega tekið upp úr gildandi lögum. Eins og hv. þingmaður vakti athygli á þá eru í lögum mjög ströng viðurlagaákvæði þar sem fjallað er um umgengni við náttúruna og viðkvæma hluta hennar. Auðvitað er þetta nokkuð sem er matskennt og alltaf má deila um en þarna er verið að setja ákveðinn refsiramma sem lögin setja. Auðvitað er það ekki þannig að menn fari í tugthúsið í tvö ár fyrir einhverjar minni háttar sakir, þá er fyrst og fremst beitt einhverjum öðrum mildari úrræðum. En einmitt í ljósi þess sem hv. þingmaður var að segja þá þurfum við að hafa einhver viðurlagaákvæði sem gera það að verkum að hægt sé að beita þeim ef um er að ræða t.d. vítavert gáleysi í meðhöndlun viðkvæmra þátta í lífríkinu. En þetta er mál sem menn geta að sjálfsögðu farið yfir. Ég vek hins vegar athygli á því að þessi lagagrein sem við byggjum á er tiltölulega ný, frá árinu 2006 með síðari breytingum, og ég geri ráð fyrir að á þeim tíma hafi menn velt þessu talsvert fyrir sér.

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér er ekki ástæða fyrir mig til að fara efnislega yfir þessi mál. Menn ræddu fiskeldið vítt og breitt og það er út af fyrir sig alltaf áhugavert að gera. En í þessu svari mínu og síðari ræðu minni vildi ég fyrst og fremst víkja að þeim efnisatriðum sem vakin var athygli á og snerta þetta frumvarp beinlínis og þeim spurningum sem til mín var beint.