135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

Fiskræktarsjóður.

554. mál
[17:28]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Hér kemur gamall vinur eða draugur enn upp á yfirborðið, sem er Fiskræktarsjóður en honum er ætlað ákveðið verkefni í því að búa til aðstöðu og stuðla að fiskrækt og öðru slíku fyrir veiðifélög.

Gjald til þessa sjóðs hefur verið aflað með innheimtu gjalds af veiðitekjum en einnig með því að leggja skatt á raforkuver. Nú er um að ræða fyrirbæri sem ég held að allir séu sammála um að sé skattur en samkvæmt lögunum á hann að renna til einstaklinga, veiðifélaga eða félaga einstaklinga og það fram hjá fjárlaganefnd og fjárveitingavaldi Alþingis. Það er enn eitt dæmið um að menn horfa ekki nægilega vel á stjórnarskrána því það má ekki ráðstafa neinu fé úr ríkissjóði sem þessi skattur hlýtur að vera, þó að hann sé innheimtur af Fiskistofu þá eru þetta greinileg einkenni skatts og ætti að renna í ríkissjóð og er því ráðstafað úr ríkissjóði aftur til veiðifélaganna en fram hjá fjárveitingavaldinu.

Það er margt í þessu sem er mjög ankannalegt. Í fyrsta lagi, af hverju er verið að leggja skatt á stangveiði og aðra veiði? Af hverju gera félögin það ekki sjálf? Af hverju sjá þau ekki hag í því að leggja skatt á sig sjálf og búa til þá aðstöðu, veiðihús og annað slíkt sem peningarnir eru notaðir til, eða að sleppa seiðum? Þetta er þeirra hagur, það er hagur veiðifélagsins að gera þetta. Af hverju þarf að blanda ríkinu inn í þetta og af hverju þarf Fiskistofa að annast álagningu og innheimtu gjalda með óskaplegum heimildum? Heimilt er að áætla álagningu gjalds og skal álagningin vera svo rífleg að eigi sé hætt við að fjárhæðir séu áætlaðar lægri en þær voru í raun og veru. Síðan segir að hver sá sem tregðist við að láta Fiskistofu í té upplýsingar er varðar greiðsluskyldu skuli sæta dagsektum að ákvörðun Fiskistofu sem mega nema allt að 10 þús. kr. á dag. Þarna er verið að veita ákveðinni stofnun, Fiskistofu, ákveðið vald sem skattstjórar eiga að hafa og engir aðrir, til að ganga á borgarana.

Fiskistofu er heimilt að fella niður gjaldið ef það er minna en 500 þús. kr. Þarna er Fiskistofa komin inn í hlutverk skattstofu og það sem meira er, veiðiréttarhafar og veiðifélög skulu að eigin frumkvæði senda Fiskistofu ársreikning veiðifélags eða framtal yfir tekjur af veiði, þar með talið leigutekjum. Menn hafa ekki áhyggjur af persónuvernd þarna við að dæla upplýsingum út og suður til Fiskistofu. Það er því margt í þessu sem ég hef miklar efasemdir um.

Svo er gert ráð fyrir því að ríkissjóður leggi 270 millj. kr. inn í þetta batterí sem er ekki neitt neitt því það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að gjöldin af veiðitekjum og sölu raforku hafa verið u.þ.b. 13 millj. kr. af hvoru, 13–14 millj. kr. (Gripið fram í.) Það er sem sagt gjaldið sem veitt er þannig að það eru lagðar fram 270 millj. kr. — til hvers, herra forseti? Til þess að vextirnir af því séu nokkurn veginn 13 millj. kr., 4,5% raunvextir af þessu fé því það á að halda sér, þetta fé. Hvað er verið að gera? Hér er verið að flytja einhvern stóran sjóð þannig að vextirnir komi í staðinn fyrir ríkisframlagið. Enn þá er verið að fara fram hjá fjárveitingavaldi Alþingis. Það er sett ein tala inn í upphafi og svo eiga vextirnir að dekka 4,5% raunvexti. Ætli peningarnir verði ekki lagðir fyrir hjá ríkinu? Það skyldi þó ekki vera að ríkið borgi þessa vexti á endanum til veiðifélaganna? Ég skil ekki þessar hundakúnstir, herra forseti, að setja svona mikla peninga inn í þetta dæmi eða yfirleitt að vera með þennan Fiskiræktarsjóð. Eru það ekki hagsmunir veiðifélagsins, þeirra sem eiga árnar að þar sé settur út lax eða hvað nú þarf? Eru það ekki hagsmunir þeirra að byggja flott veiðihús svo þeir geti selt útlendingum veiðileyfi? Af hverju á ríkið að blanda sér inn í það að leggja á skatta til að standa undir þessu? Þetta er leifð frá gamalli tíð líkt og margt annað, t.d. iðnaðarmálagjaldið, búnaðargjaldið og alls konar álögur sem lagðar eru á vissar stéttir, yfirleitt tengt landbúnaði af einhverjum ástæðum, sem rennur svo til einhverra félagasamtaka einstaklinga. Þetta er löngu liðin tíð, herra forseti, á okkar öld. Þetta átti kannski rétt á sér og var réttmætt fyrir 50 árum en þetta er löngu liðin tíð og ég held að við ættum að reyna að brjóta þau helsi og þá hlekki sem íslenskur landbúnaður og veiðifélög eru hlekkir í með þessum hætti og hætta þessu.