135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

Fiskræktarsjóður.

554. mál
[17:34]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Þetta var ein af þessum skemmtilegu ræðum sem hér eru stundum fluttar. Það er gaman að heyra hv. þm. Pétur H. Blöndal skamma Sjálfstæðisflokkinn lon og don sem hefur farið með skattamál og fjármálaráðuneytið hátt í tvo áratugi (PHB: Ekki landbúnaðinn.) og ráðið miklu, og fer nú með landbúnaðarmálin að vísu svolítið nídd og illa farin eftir að vængir og fætur voru höggnir af því ráðuneyti og stungið inn í annað. En það er önnur saga. Það er einhvern veginn svo með hv. þm. Pétur H. Blöndal að hann hefur ekki alltaf rétt fyrir sér þó að hann hafi mikið vit á peningum og fé og fari mikinn í umræðum. Ég mun koma nánar að því.

Ég þekki þetta mál frá minni tíð sem landbúnaðarráðherra og sé að þær breytingar hafa átt sér stað sem sterk öfl börðust fyrir alla mína tíð. (Gripið fram í.) Í minni tíð sem landbúnaðarráðherra var lax- og silungsveiðilöggjöfin endurskoðuð og mörkuð inn í nýjan tíma eftir viðamikið starf og góða meðferð í þinginu þannig að það er í mjög góðu formi. En þetta lá eftir, Fiskræktarsjóður, af því að aldrei var samstaða um það mál.

Ég taldi sem landbúnaðarráðherra, unnandi náttúrunnar, að sanngjarnt væri að raforkan, stóriðjan, greiddi gjald til Fiskræktarsjóðs. Hér koma gömlu rökin sem ég stóð stundum frammi fyrir sem landbúnaðarráðherra. Ég heyrði þau rök oft að ójafnvægi væri á milli þeirra aðila sem framleiddu rafmagn úr fallvötnum, hinu kalda vatni, og hinna sem framleiddu rafmagn úr gufuafli, þeirra sem væru að framleiða rafmagn núna og þyrftu ekki að greiða þetta gjald. Ég hafði alltaf einföld rök fyrir þessu: Það lifir ekki nokkur einasti fiskur í gufu. Það lifir enginn fiskur við mörg hundruð stiga hita. Hann er soðinn við þær aðstæður. Þess vegna gjalda slík fyrirtæki ekki náttúrunni. Þau eru hvergi nálægt fiski. Fiskurinn lifir í ám og vötnum. Mér fannst það því alltaf sanngjarnt að raforkan, stóriðjan, þessar framkvæmdir hér, eins og í Noregi, Svíþjóð og miklu víðar, yrði að gjalda náttúrunni afgjald.

Þetta er ekki skattur. Það hefur verið farið yfir það. Þetta er ekki skattlagning. Þetta er auðlindagjald til náttúrunnar, sem rennur inn í Fiskræktarsjóð sem þjónar ekki bara hagsmunum íslenskra bænda heldur veiðimanna. Um 60–70 þúsund manns á Íslandi, karlar, konur og börn, stunda lax- og silungsveiðar í ám og vötnum og hafa notið þess með víðtækum hætti að Fiskræktarsjóður hefur komið til aðstoðar við ýmis félagsleg málefni og enn fremur orðið því til styrkingar að rækta upp árnar og vötnin og náð þar miklum árangri. Ég lét mig aldrei fyrir þessum rökum og þess vegna varð þetta mál eftir að mér, sem stjórnmálamanni og einstaklingi, fannst sanngjarnt að stóriðjan, raforkan, greiddi þetta auðlindagjald til fiskræktar í landinu.

Við eigum vissulega dæmi um að virkjanir hafa valdið breytingum á árfarvegum með alvarlegum afleiðingum. Við höfum líka dæmi um það að virkjanir hafi orðið til þess að ár urðu góðar veiðiár, ég get nefnt Blöndu sem dæmi. Þetta er sem sagt mín skoðun. Ég var þessarar skoðunar. Í mínum flokki og öðrum fannst að vísu mörgum að finna yrði aðra leið. Fór mikinn í því forstjóri Landsvirkjunar, minn góði vinur Friðrik Sophusson, sem hafði þær skoðanir sem nú eru komnar fram. Um það þýðir ekki að deila.

Ég vil fagna því að þessi mikilvægi sjóður getur enn komið að liði við alls konar úrbætur fyrir veiðiskapinn, veiðiárnar, vötnin og ræktun stofnanna, og haldið utan um það sem hann hefur gert og komið til hjálpar í. Mörg mikilvæg vísindastörf eru í kringum fiskinn. Hver einasta á á sinn sérstaka stofn í laxinum eins og við þekkjum og ég sé að hér situr sérfræðingur urriðans, hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson. Fáir þekkja þessi vísindi betur en hann. Þess vegna hefur það verið mikilvægt fyrir íslenska félagshyggjuþjóð að eiga slíkan sjóð sem Fiskræktarsjóðurinn er.

Ég geri mér grein fyrir því, hæstv. forseti, að sjóðurinn verður til. Mér sýnist að niðurstaðan hafi orðið sú að hæstv. landbúnaðarráðherra hafi náð samkomulagi við veiðiréttareigendur og stjórnmálamenn, ráðherra í ríkisstjórn og stjórnarflokkana, um að fara aðra leið. Hún vegur í sjálfu sér jafnþungt hvað framlögin varðar til málaflokksins. Mér sýnist að þarna hafi menn fundið 270 millj. kr. Það geta verið fallbætur sem þar koma, ríkið fær miklar fallbætur, þá var þessi sjóður stofnaður og þar með festist þetta í sessi. Ég stóð aldrei frammi fyrir neinum slíkum tillögum af hálfu þeirra fjármálaráðherra sem ég mátti eiga við að það væri á lausu, það var aldrei í sjálfu sér í umræðunni. Ég fagna því að … (Iðnrh.: Núverandi landbúnaðarráðherra á góða stuðningsmenn í ríkisstjórninni.) ég efast ekkert um það, það átti ég einnig á mínum tíma en mér sýnist að menn hafi þá fundið þessa leið.

Það eru sjálfsagt fallbæturnar að austan sem menn taka í þennan pott og við því er í sjálfu sér ekkert að segja. En ég vildi samt að það kæmi fram að ég kannast við öll þessi undarlegu rök sem hæstv. landbúnaðarráðherra fór með um gufuna og fallvötnin, kalda vatnið sem framleiðir rafmagn, og ég fór yfir það. Ég var einfaldlega þeirrar skoðunar að það sem aðrir gera, eins og í Svíþjóð og Noregi, var líka eðlilegt hér, að raforkan, stóriðjan, mundi gjalda náttúrunni smágjald. Þannig ætti það að vera í mínum huga til þess að bæta fyrir tjón, til að verða að liði í þessu landi í kringum árnar, vötnin og veiðiskapinn. Veiðiskapurinn er mikil þjóðareign fyrir Íslendinga og hann skapar hér miklar tekjur. Við fáum mikið af útlendingum og eigum sérstaka náttúru sem við margir sækja til sem betur fer.

Þessu vildi ég koma til skila af minni hálfu. Við þetta barðist ég á þessum tíma og gat því ekki klárað heildarendurskoðun á lax- og silungsveiðilöggjöfinni. Þetta eina mál stóð þar út af. En þetta er niðurstaða og ég vona sannarlega að þessi sjóður megi standa. Ég man eftir því að margir sem ég vann með, hagsmunaaðilar og fleiri, óttuðust að þessi leið yrði farin, að setja ætti þetta á skattgreiðendur á Íslandi eins og nú er verið að gera. Það er kannski rétt að hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem hér situr, átti sig á því að nú er þetta fyrst og fremst haft á þann veg að þjóðin á þennan sjóð og tekjurnar af honum renna til þessa málaflokks en með þessum hætti er gjaldið nær skattgreiðendum en það var þegar orkufyrirtækin og stóriðjan urðu að borga það. Þetta segir mér kannski þá sögu að Samfylkingin er ekki nær náttúrunni en þetta, þó að hún sitji í þessari ríkisstjórn, að hún vill hlífa stóriðjunni við því að borga til Fiskræktarsjóðs.

Meira hef ég ekki um þetta að segja við þessa umræðu, hæstv. forseti. Ég treysti því að landbúnaðarnefnd, eins og hér hefur komið fram, fari vel yfir þetta mál og grandskoði það.