135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

Fiskræktarsjóður.

554. mál
[17:46]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú einhvern veginn þannig að hv. þingmaður hefur þá sérstöðu að í raun þýðir aldrei að ræða um félagshyggju við hann. Ég sagði að það væri óeðlilegt að taka gjald af gufunni því það lifði ekki fiskur í henni.

Hitt er annað mál að það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að virkjanir hafa stundum haft tvíþætt áhrif og þegar áratugir eru skoðaðir og kannski aldir þá geta þar líka verið margslungin áhrif. Ég nefndi Blöndu. Hún breyttist úr skaðræðisjökulfljóti í allgóða veiðiá og sjálfsagt verður það eins með Jöklu. Það gefur tekjur. En svo eru hin dæmin mörg þannig að þetta er einhver meðaltalsuppfinning sem var á þessu sviði.

Í sjálfu sér þurfum við ekkert um þetta að deila því hér verður sjálfsagt niðurstaðan sú að þetta er liðin tíð. Menn eru að taka upp aðrar aðferðir en fara samt í fallbæturnar sem ríkið fær í sínar hendur við þessar aðstæður út af virkjunum fyrir austan og ná þar miklum peningum og mynda þennan sjóð.

Um hina leiðina þurfum við ekkert að deila. Ég hef bara farið yfir það sem mína skoðun að mér fannst sanngjarnt að raforkan, stóriðjan, mundi gjalda íslenskri náttúru auðlindagjald sem rynni til jafnfélagslegra þarfa og fiskræktarsjóður hefur staðið fyrir, ekki bara fyrir einhverja auðuga menn heldur fyrst og fremst jarðeigendur sem hafa verið að bæta aðstöðu fyrir hina íslensku þjóð sem er veiðiþjóð og sækir inn á lönd þeirra og stundar þar veiðiskap og um þetta fólk fer betur. Það eru fiskistigar, bætt aðstaða og hitt og þetta. Þetta hefur allt saman skilað (Forseti hringir.) þjóðinni miklum tekjum. En vonandi reynist þessi (Forseti hringir.) nýi sjóður og þessi nýja aðferð líka vel í þeim efnum að halda áfram á sömu braut og verið hefur.