135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

Fiskræktarsjóður.

554. mál
[17:51]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það skortir aldrei hátt flug hjá hæstv. iðnaðarráðherra. Þarna er hann reyndar sérfræðingur og það getur vel komið til greina með þennan sjóð að hann eigi að vera stærri. Fallbæturnar verða miklar. Þar af leiðandi verða meiri tekjur.

Ég fagna bara hans ummælum því hann lítur á sjóðinn svipað og ég sem umhverfisverndarsjóð — þannig orðaði hann það — sem smyr framtíðina nýjum tækifærum. Hann nefnir til dæmis það stóra verkefni sem nú hlýtur að vera fram undan á Austurlandi, að huga að fiskræktun, laxtegunda eða silungs, í Jöklu. Ég tek undir þetta allt saman.

Jú, það er nú stundum sagt að ég sæki til fornaldarinnar og hafi áhuga á mörgu gömlu. Allt er það rétt. En ég hef líka áhuga á því nýja. Menn verða að nota sér það sem til hefur verið í samfélaginu og horfa beint fram á veginn inn í nýjan tíma. Þó ég standi nú fastur í fornöldinni þá tel ég mig nútímamann og það held ég að fleiri andstæðingar mínir hafi orðið að viðurkenna miðað við störf mín sem landbúnaðarráðherra heldur en þeir héldu fram áður.

Jú, ég kannast við sögurnar um hverafiskinn og hér hefur nú farið fram skemmtileg umræða um það stundum í þinginu og verið ortar um það vísur. Ég kannast því við þær þjóðsögur allar. Þegar jarðskjálftinn mikli 1896 gekk yfir Suðurland og hverirnir opnuðust og lokuðust í Ölfusinu þá var þetta nú fræg saga. En ég hef engan hitt sem hefur lagt þann fisk sér til munns sem ummælin segja frá þar.

Ég segi fyrir mig að ég vildi koma mínum hugsjónum hér á framfæri (Forseti hringir.) og fyrir hverju ég stóð og hvers vegna ég stóð gegn breytingunum. En ég verð að sætta mig við þetta eins og aðrir. (Forseti hringir.) Ég ræð ekki þinginu og hér er meiri hluti þannig að menn hafa fært þetta í búning sem menn verða þá að una og ná samkomulagi um.