135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

Fiskræktarsjóður.

554. mál
[17:53]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég minnist þess þegar við ræddum þessi mál einhvern tímann endur fyrir löngu að hv. þm. Guðni Ágústsson nálgaðist einmitt þetta mál, nauðsyn á því að rækta upp árnar og vötnin, frá sjónarhóli byggðastefnu. Hv. þingmaður hefur haldið hér alveg feikilega góðar ræður um það hve einmitt samstarf veiðifélaganna og starf þeirra sé mikilvægt til þess að halda og treysta og efla byggð sums staðar þar sem segja má að hún hafi verið að gliðna. Ég held að stangveiði og það starf sem tengist henni og afleidd störf sem af henni spretta séu gríðarlega mikilvæg. Þess vegna sé ég ekkert að því að þessi leið sé farin.

Hv. þingmaður segir alveg sannleikanum samkvæmt að hann hefði gjarnan viljað fara aðra leið. Þetta er samkomulag og hv. þingmaður lýsir því yfir að hann vilji gjarnan skoða þetta með jákvæðum huga. Þannig eiga menn að vinna. Það eru menn sem horfa til framtíðar.

Ég var nú ekki að fleyta neinum köpuryrðum að hv. þingmanni þegar ég sagði að hann væri maður fortíðarinnar hvað varðar hefð sagnalistarinnar. Hv. þingmanni hefur tekist flestum öðrum betur við að þætta saman framtíðarhugsun og fortíðarhyggju þó ég skuli nú að vísu viðurkenna það, herra forseti, að hv. þingmaður talar stundum þannig, sér í lagi um bók bókanna í Íslendingasögunum, Njálu, að halda mætti að hann og Njáll hefðu verið samtíðarmenn á sínum tíma.