135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu o.fl.

553. mál
[18:14]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður málar skrattann á vegginn og hún telur að hér sé náttúrlega djúpt samsæri á ferðinni af hálfu iðnaðarráðherra. Samsærið felist í því að það eigi að auðvelda raforku- og stóriðjufyrirtækjum að ganga á skóm sínum, skítugum eða hreinum eftir atvikum, yfir rétt landsmanna. Það er ekki um neitt slíkt að ræða.

Það vakir auðvitað ekki fyrir mér að rýra rétt eins eða neins. Þarna er verið að gefa ákveðinn frest. Ég taldi að hann væri nægur. Við munum ábyggilega sjá það þegar málið fer í gegnum eðlilegt vinnuferli í þinginu þar sem það verður sent til allra þeirra sem hafa einhverja hagsmuni af þessu, þar með talið umhverfis- og náttúruverndarsamtaka, hvaða viðhorf viðkomandi samtök hafa.

Það er ekki vilji minn að aðstoða við að náttúran verði rænd verðmætum sínum, eins og hv. þingmaður lét alla vega liggja að. Við megum ekki gleyma því að það eru lög í landinu um umhverfismat, um framkvæmdir, (Gripið fram í.) um ákaflega marga hluti sem tengjast einmitt vernd náttúrunnar. Það er að finna í einum þrennum, fernum verulega gildum lögum og reyndar fleirum sem eru í fullu gildi.

Ef mönnum tekst að koma sjónarmiðum sínum þannig á framfæri að fallist sé á þau í fyrsta lagi í tilviki þeirra sem sækja um leyfið, þá verður það að sjálfsögðu gert með tilliti til laga. Í öðru lagi ef ekki er fallist á þau, t.d. ef kært er til ráðherra, þá verður það líka gert á faglegum forsendum og eins er jafnan reynt að láta náttúruna njóta vafans.