135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu o.fl.

553. mál
[19:03]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í gildi eru lög sem hér er lagt til að breyta. Annars vegar er um að ræða lög um eignarrétt íslenska ríkisins á auðlindum hafsbotnsins. Þar segir að enginn megi leita að efnum til hagnýtingar á, í eða undir hafsbotninum utan netalagna nema að fengnu skriflegu leyfi iðnaðarráðherra. Enn fremur segir að óheimilt sé að taka efni og nýta efni af hafsbotni eða úr honum nema að fengnu skriflegu leyfi iðnaðarráðherra. Þetta eru lögin sem nú á að fara að breyta, sem hæstv. iðnaðarráðherra leggur til að breyta þannig að í stað þess að ráðherra beri pólitíska ábyrgð á veitingu leyfa til þess að vinna úr hafsbotninum, samkvæmt einhverri pólitískri stefnu, send út í bæ til Orkustofnunar.

Á sama hátt eru lagðar til breytingar á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þar segir í 4. gr. að iðnaðarráðherra sé heimilt að hafa frumkvæði að og láta rannsaka og leita að auðlindum í jörðu og að nýting auðlinda í jörðu sé háð leyfi iðnaðarráðherra. Ráðherra er heimilt að veita rannsóknarleyfi o.s.frv., segir þar en þessu á öllu að breyta. Þetta eru þau lög sem eru í gildi, hæstv. ráðherra.

Það þýðir voðalega lítið að vísa til þess að nýbúið sé að breyta lögum um virkjunarleyfi. Við erum ekki að tala um virkjunarleyfi. Við erum að tala um leyfi til að stunda rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu og á hafsbotni. Við vitum að á ósnortnum svæðum, þegar farið er inn á viðkvæm svæði eins og jarðhitasvæði okkar, jafngildir rannsóknarleyfið oft eyðileggingu á viðkomandi svæðis. Ríkisstjórn Íslands, iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra eiga að bera ábyrgð á slíku og eiga að passa það. Þeir eiga ekki að vísa þeirri gæslu út í bæ.