135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu o.fl.

553. mál
[19:10]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Ég er sammála hv. þingmanni um að menn eigi að hafa sem rýmstan rétt til þess að kæra ákvörðun stjórnvalds í öllum tilvikum. Ég hef margsinnis lýst yfir stuðningi við Árósasamninginn og gott ef ég var ekki einn af fyrstu umhverfisráðherrunum sem reifaði þann samning á hinu háa Alþingi. Mig minnir að hann hafi verið þá í burðarliðnum. (Gripið fram í.) Það var um það bil að umræðan um hann hófst og ég held að samningurinn hafi orðið til í þann mund sem ég var að kveðja þann góða stól. En það skiptir ekki máli.

Hv. þingmaður veltir því fyrir sér hvort rétturinn sé nægilega rúmur, ég les það út úr máli hennar. Ég vek þó athygli á því að í þeim úrskurðum sem hv. þingmaður deildi á hæstv. umhverfisráðherra fyrir kom fram lagaleg rökfærsla, af hálfu hagsmunaaðila handan borðs öndvert Landvernd, um að Landvernd væri ekki aðili að málinu. Það voru sterk lögfræðileg rök færð fyrir því sem m.a. komu á mitt borð af því að ég þurfti að veita álit á þessu. Það var alveg ljóst að ekki var með sanngjörnum hætti hægt að túlka lögin svo. Landvernd og hvaða samtök sem eru, sem starfa á landsvísu og hafa 30 manns innan sinna vébanda, eru hagsmunaaðilar samkvæmt lagalegri skilgreiningu. Það kann vel að vera að það sé ekki nægilega rúmt til að alls sé gætt. En í þessu tilviki var þess a.m.k. gætt og réttur þeirra viðurkenndur, kærunni var ekki fleygt út af borðinu. Það liggur alveg ljóst fyrir. (Gripið fram í.) Ekki á þeim grundvelli að þeir hefðu ekki aðild að málinu.

Aðeins að lokum, frú forseti, vildi ég mælast til þess, þótt kannski sé til of mikils mælst, að hv. þingmaður velti fyrir sér hvort það sé ekki rétt þegar ég segi að í hvert skipti sem ráðherra tekur ákvörðun ber hann pólitíska ábyrgð. (Forseti hringir.) Það er einfaldlega þannig. En þá er líka deilum okkar lokið því að við erum þó sammála um það.