135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:36]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hér er bryddað upp á sé ég ástæðu til að taka þátt í henni vegna þess að nafn mitt var nefnt í tengslum við skoðanir mínar um það hvort rétt sé að veita ríkisháskólunum heimildir til að taka upp skólagjöld vegna þess náms sem þeir bjóða upp á. Ég hef verið óhræddur við að segja að mér finnst ástæðulaust að banna þeim að gera það án þess að það hafi verið lagt til í menntamálanefnd. Ég lýsti því í Fréttablaðinu að ég fengi ekki betur séð en þau sjónarmið nytu aukins stuðnings alls staðar í samfélaginu nema kannski hjá vinstri grænum sem sjá skrattann í öllum hornum og eru á móti öllu, hvaða mál sem það eru.

Af hverju segi ég að þessi sjónarmið njóti aukins stuðnings í samfélaginu? Jú, það er vegna þess að eins og kunnugt er kynnti núverandi rektor Háskóla Íslands, Kristín Ingólfsdóttir, fljótlega eftir að hún náði kjöri, það háleita markmið Háskóla Íslands að verða einn af 100 fremstu háskólum í heimi. (Gripið fram í.) Ég hef margoft sagt að ætli Háskóli Íslands að ná því háleita markmiði sem að er stefnt verði að tryggja það að skólinn sitji við sama borð á öllum sviðum og þeir skólar sem hann kýs sjálfur að bera sig saman við. Þar er tekjuöflunarsviðið ekki undanskilið. Langflestir þeirra háskóla sem eru í hópi þeirra 100 bestu innheimta skólagjöld og menn verða bara að horfast í augu við það. Ég hef ekki orðið var við annað en að nemendur, kennarar og stjórnmálamenn taki undir þessi áform Háskóla Íslands og meini menn eitthvað með stuðningi sínum við þessi áform Háskóla Íslands um að verða einn af 100 bestu háskólum í heimi verða menn að nálgast umræðuna um upptöku skólagjalda fordómalaust (Forseti hringir.) og með hagsmuni háskólans að markmiði og sömuleiðis hagsmuni nemenda. Það hef ég gert.