135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:41]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu vegna þess að ég, eins og hv. þingmaður sem tók þetta mál upp, Björn Valur Gíslason, var líka mjög hissa á því að hv. formaður menntamálanefndar skyldi taka að sér að túlka stefnu og líðan samfylkingarmanna. Ég var allsendis ósátt við það svo vægt sé til orða tekið. Og vegna þess og hv. þm. Birkir Jón Jónsson kom upp og sagði að hér skyldi fást úr því skorið hver stefna Samfylkingarinnar væri, þá er mér það ljúft og skylt að greina hv. þingheimi frá því að fyrir réttu ári síðan hélt Samfylkingin landsfund og þar var stefna hennar samþykkt mjög skýrt og skorinort og þar segir, með leyfi forseta, að Samfylkingin vilji stuðla að því að öllum standi til boða gjaldfrjáls menntun frá og með leikskóla til og með háskóla.

Þar kom líka fram að Samfylkingin vilji, og ég vil að hv. þingheimur taki vel eftir þessu, tryggja að skólagjöld verði ekki tekin upp í almennu grunn- og framhaldsnámi við opinbera háskóla. Við þetta verður að sjálfsögðu staðið og það er einmitt þess vegna sem ekki er staf að finna um þetta í frumvarpinu sem leggja á fram og mæla fyrir á morgun. En að menn skuli þvæla skólagjöldum í þessa umræðu um frumvarp til laga um opinbera háskóla er fyrir neðan allar hellur vegna þess að ég vona að á morgun munum við eiga merkilega, djúpa og góða skólapólitíska umræðu um hið raunverulega frumvarp en ekki um það sem ekki er í frumvarpinu eins og hér er gert.