135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:43]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er í sjálfu sér ágætt að fá þá undirstrikun á stefnu Samfylkingarinnar sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir kom fram með. Hitt verður þó að vera alveg ljóst að ójafnræði meðal háskóla hefur orðið til vegna stefnu Sjálfstæðisflokksins í menntamálum. Það ójafnræði er þannig til komið að einkaháskólarnir fá að taka skólagjöld ofan á full framlög hins opinbera með hverjum nemanda. Sambærilegir skólar á Norðurlöndunum skerða að sjálfsögðu hið opinbera framlag sem nemur þeim skólagjöldum sem tekin eru. Ég vil fá að sjá Samfylkinguna standa vörð um það sjónarmið sem við vinstri græn höfum verið með í þessari umræðu að það eigi að skerða framlagið til einkaskólanna sem nemur skólagjöldunum til þess að jafnræði sé náð. Öðruvísi náum við ekki jafnræði nema með hugmyndinni um skólagjöld og það er hugmyndin sem Sjálfstæðisflokkurinn keyrir á. Nú er búið að afhjúpa þennan núning, þennan grundvallarágreining sem ríkir á milli stjórnarflokkanna. Ég vil því fá að heyra hv. þingmenn Samfylkingarinnar koma hér upp og segja að þeir muni standa vörð um jafnræði háskólanna hvað þetta varðar á þann hátt að framlagið til einkaháskólanna verði skert sem nemur skólagjöldunum til þess að ekki þurfi að fara að taka skólagjöld í opinberum háskólum, til þess að ekki þurfi að pína opinberu háskólanna inn á braut ... (Menntmrh.: Skerða framlagið til listaháskólans.) Það er enginn að tala um að skerða framlag til eins eða neins. Það er bara verið að tala um það að jafnvægi ríki á milli háskólanna og það sé ekki gert á þann hátt sem Sjálfstæðisflokkurinn vill gera. (Gripið fram í.) Hv. þingmenn eru að snúa út úr orðum mínum og það er ópent að fólk geri það á þeim nótum. (Gripið fram í.) Skilningur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á jafnræði háskólanna er alveg skýr. Jafnræði til náms verður fengið með því að fjárframlögin sem skólarnir hafa úr að spila (Forseti hringir.) séu sambærileg til opinberra háskóla og til einkaháskóla. Það er stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.