135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:47]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þá er það upplýst sem upplýst skyldi um stefnu Samfylkingarinnar í þessum efnum. Hún hefur legið fyrir vottfest og samþykkt á landsfundi flokksins sennilega í rúmt heilt ár. Hafi hér afhjúpast ágreiningur Samfylkingarinnar og einhverra annarra flokka þá er það vegna þess að menn hafa ekki verið sestir í leiksalinn að horfa á leiksýninguna fyrr en núna. Stefna okkar í þessum efnum hefur verið ljós í heilt ár og hún er óbreytt, hún er ósköp einfaldlega óbreytt.

Það er líka stefna Samfylkingarinnar að jafnræði ríki milli þessara tveggja tegunda eða gerða af skólum, opinberu skólanna annars vegar og sjálfstætt starfandi skóla hins vegar. Okkur vantar orð yfir þetta því einkaskólar er ekki gott orð, ég held að enginn þeirra sé rekinn í gróðaskyni.

Hæstv. menntamálaráðherra svaraði um daginn fyrirspurn minni um lán til skólagjalda úr Lánasjóði íslenskra námsmanna. Það var fróðlegt svar. Þar kemur fram að á sex árum hefur Lánasjóðurinn veitt lán að upphæð 2,6 milljarðar, og það er yfirgnæfandi til hinna skólanna, ekki til þeirra opinberu. Með því skapast ójafnræði vegna þess að þumalputtareglan er sú að helmingurinn af lánunum úr Lánasjóði íslenskra námsmanna jafngildir styrk. Helmingurinn af þessum lánum er í raun og veru styrkur ríkisins til sjálfstætt starfandi skóla og ekki ríkir jafnræði á milli þessara tveggja gerða af skólum.

Hvernig á að bæta úr því? Skólagjöld, segir hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson. Hann um þá skoðun. Ég segi nei, Samfylkingin segir nei við því. Í fyrsta lagi vegna þess að við höfum pólitíska afstöðu gegn þessum skólagjöldum, viljum þau ekki. Í öðru lagi vegna þess að deildir þeirra skóla sem um er að ræða vilja það margar hverjar ekki heldur. Það hentar þeim ekki. Þá verðum við að jafna þetta með öðru móti (Forseti hringir.) og í því dæmi verðum við að taka tillit til þess að hlutverk og eðli opinberu háskólanna er allt annað en sjálfstætt starfandi skólanna.