135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:52]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það var eins og ég vissi, þessi umræða þarf miklu meiri tíma en hér er til umráða. Við þurfum að halda henni áfram á morgun þegar við ræðum það frumvarp sem liggur fyrir, frumvarpið sem birtir stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum — ég átta mig ekki alveg á þeim mikla gauragangi sem hér er hjá einstaka hv. þingmönnum — en þar kemur stefna ríkisstjórnarinnar fram og þar er ekki minnst á nein skólagjöld í opinberum háskólum.

Ríkisstjórnin er mynduð af tveimur flokkum sem ræða eðlilega ýmis mál vegna þess að ekki hefur átt sér stað samruni flokka eins og við sáum svo oft á síðasta kjörtímabili. (Gripið fram í.) Það er gífurlegur munur þar á. Við erum því tilbúin til þess að taka þátt í þeirri umræðu fordómalaust að tryggja jafnstöðu háskólanna hér á landi.

Við viljum ekki koma með eina einfalda patentlausn og lenda síðan í því að hún sé algjörlega á skjön við það sem við raunverulega viljum. Því lenti hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, sárasaklaus manneskjan, í hér rétt áðan þegar hún boðaði að Listaháskólinn ætti að verða fyrir niðurskurði — ég hef enga trú á því að hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar en þessi er hættan þegar fólk ætlar að leysa öll mál með einföldum patentlausnum. Þetta mál er miklu flóknara en svo að hægt sé að leysa það þannig.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson lenti t.d. í þeim vanda. Ég veit ekki alveg hvort það er stefna Framsóknarflokksins að leyfa alfarið skólagjöld í framhaldsnámi í Háskóla Íslands, ég held að það sé ekki stefna Framsóknarflokksins. En hv. þm. Birkir Jón Jónsson talaði eingöngu um það að aldrei mættu vera skólagjöld í grunnnáminu. Við munum líka lenda í vandræðum með slíka patentlausn, sumt framhaldsnám í Háskóla Íslands er í samkeppni og annað ekki við aðra háskóla. Þetta er þannig mál, hv. þingmenn, (Forseti hringir.) þó að sumir hverjir vilji vera með stór orð, að við þurfum að gefa okkur tíma, fara yfir það og ræða það fordómalaust þó svo sumir séu (Forseti hringir.) hræddir við eigin fordóma.