135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:54]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna ástandsins í efnahagsmálum og þeim skorti á samhljómi sem mér þykir vera milli ekki einasta stjórnarflokkanna heldur ríkisstjórnar og Seðlabankans. Þrátt fyrir margháttuð loforð um að þar séu menn að ná samhljómi í umræðunni gerist það nú í gærkvöldi að á Stöð 2 er birt viðtal við hæstv. fjármálaráðherra. Ég les hér upp úr því viðtali, eins og það er skrifað út, með leyfi forseta, þar sem hann er spurður um þann mun sem er á spá Seðlabankans og spá fjármálaráðuneytisins:

„Þetta eru hins vegar mismunandi forsendur sem menn eru að gefa sér og draga menn ályktanir af þeim tölum sem í gangi eru. Það hefur reyndar verið þannig á undanförnum árum að spár Seðlabanka hafa verið svona meira út í öfgarnar beggja vegna.“

Þá höfum við það. Seðlabankinn aðhyllist einhverja öfga í efnahagsmálum. Ég er ekki algjörlega sannfærður um að þetta mat fjármálaráðherra eigi við nú þar sem ég held að Seðlabankinn hafi að mörgu leyti farið nær því en fjármálaráðuneytið að sjá fyrir ástandið eins og það hefur orðið í vetur og ríkisstjórnin hefur ekki tekið þeim varnaðarorðum sem bæði komu frá Seðlabanka og stjórnarandstöðu í umræðum um fjárlögin.

En það er líka ljóst að meðul Seðlabankans í þessum efnum eru talsvert önnur en við framsóknarmenn vildum alla vega sjá og langar mig að vita um afstöðu formanns fjárlaganefndar til þess. Ég held að meðul Seðlabankans í þeirri efnahagskreppu sem nú er séu meðul frjálshyggjunnar. Það eru þau meðul að hér skuli stefnt að atvinnuleysi og gjaldþrotum (Forseti hringir.) fyrirtækja og þannig skuli leyst úr málum. En það eru til aðrar og gæfulegri leiðir.