135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:59]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Í gær bar á góma hvalveiðar og ímynd Íslands. Mig langar að beina orðum mínum til hv. þm. Jóns Gunnarssonar sem á sæti í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og hefur mikla þekkingu á hvalveiðum og öllu er lýtur að hvölum

Menn hafa ekki fjallað mikið um þetta feimnismál en Ísland er og verður veiðimannasamfélag um ókomna tíð. Þar liggja hin raunverulegu verðmæti sem úr er að spila. Það eru 100.000 hvalir við Ísland, lágmark. Um 45.000 hrefnur, líklega 12.000–15.000 hnúfubakar, 20.000 langreyðar o.s.frv.

Þessi hvalastofn étur eina til tvær millj. tonna á ári af loðnu og öðru æti við landið. Þessi hvalastofn er í beinni samkeppni við Íslendinga sjálfa. Hvalirnar eru álíka margir í sjónum við Ísland og íbúar höfuðborgarinnar, okkar ágætu höfuðborgar.

Það þýðir ekkert að loka augunum fyrir því að við verðum að grípa til þess að fækka hvölum við Ísland, hvort sem það er til veiða eða beinlínis til að fækka þeim. Staðreyndir blasa við og þýðir ekkert að vera með neina pjatthugsun í þeim efnum eða tilfinningasemi gagnvart öðrum ríkjum. Það gengur ekki. Það verður að fara að stoppa og stemma stigu við því. Þetta er hagsmunamál Íslendinga. Þetta er ekki síst hagsmunamál landsbyggðarinnar allrar sem á nú mjög undir högg að sækja þar sem fólk er að tapa hlutdeild í eignum sínum, hlutdeild í atvinnu o.s.frv.

Ég vildi vekja máls á þessu, hv. alþingismenn, og fjalla svolítið um þetta vandamál sem er, að mínu mati, því miður oft falið.