135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

skaðabætur til fjölskyldna fórnarlamba í sprengjuárás gegn íslenskum friðargæsluliðum.

561. mál
[14:08]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Sjálfsmorðsárásin í Kabúl í október 2004 var skelfilegur atburður. Þetta var í fyrsta sinn sem árás var beint beinlínis gegn íslenskum friðargæsluliðum á vettvangi og var mikið áfall fyrir okkur öll. Tvær saklausar manneskjur létu lífið og allmargir slösuðust.

Ég hjó eftir því að fyrirspyrjandi sagði í málflutningi sínum að rekja mætti sjálfsmorðsárásina til starfsemi Íslendinga í Afganistan. Það er auðvitað alveg fráleitt að orða hlutina með þessum hætti vegna þess að þeir sem stóðu fyrir sjálfsmorðsárásinni bera auðvitað á henni fulla ábyrgð og ekki er hægt að vísa þeirri ábyrgð á aðra eins og mér fannst felast í þessum orðum. Sjálfsmorðsárásin var í eðli sínu hryðjuverk. Hún beindist að alþjóðlegu friðargæsluliði sem starfar í umboði Sameinuðu þjóðanna í landinu og hún beindist líka að almennum borgurum vegna þess að hún var framin á fjölfarinni verslunargötu á miðjum degi og olli því að tveir einstaklingar létu lífið og mikið tjón varð.

Spurt er í þessari fyrirspurn hvort Íslendingar hafi greitt skaðabætur vegna þessa máls. Því er til að svara að eftir því sem ég fæ best séð voru ekki greiddar bætur af hálfu íslenska ríkisins vegna þessa máls til heimamanna sem slösuðust eða létu lífið á vettvangi árásarinnar. Til þess voru ekki taldar forsendur þar sem enginn af friðargæsluliðunum okkar hleypti af skoti eða skaðaði neinn á vettvangi. Um var að ræða árás á starfsmenn okkar en ekki átök þeirra við aðila á vettvangi.

Margt varðandi þetta mál virðist hins vegar hafa verið óljóst í hugum almennings, fjölmiðla og þingmanna og ég varð vör við það þegar ég fór til Afganistans nýverið að þetta mál vakir enn í hugum fólks og er talið óútkljáð. Málið er dregið fram aftur og aftur á Alþingi og annars staðar sem einhvers konar áfellisdómur yfir friðargæslunni, yfir friðargæsluliðum og þátttöku í friðargæsluverkefnum sem við höfum átt aðild að. Sumum virðist þykja sem einhverju hafi verið leynt í þessu máli. Ég tel rétt og eðlilegt þar af leiðandi að farið sé yfir málið af hlutlausum aðilum og andrúmsloftið hreinsað. Í því skyni hef ég falið Guðrúnu Erlendsdóttur og Haraldi Henryssyni, fyrrverandi hæstaréttardómurum, að gefa mér álit á þessu máli, fara yfir gögn, taka viðtöl við aðila sem að þessu komu og gefa sem heildstæðast yfirlit til mín um málið. Ég hef óskað eftir því að álitið verði tilbúið sem fyrst og ég mun kynna utanríkismálanefnd þingsins álitið og upplýsa um efni þess eins og kostur er þegar það liggur fyrir. Utanríkisráðuneytið mun að sjálfsögðu aðstoða við gagnaöflun og leggja þeim allt það lið sem kostur er við könnun málsins. Það er von mín að með þessu getum við endanlega metið atvikin, séð hvort ástæða er til breytts verklags eða aðgerða af einhverju tagi.