135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

skaðabætur til fjölskyldna fórnarlamba í sprengjuárás gegn íslenskum friðargæsluliðum.

561. mál
[14:13]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Mér er alveg ljóst að það er ágreiningur í þinginu á milli okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og m.a. hæstv. utanríkisráðherra og flokks hennar um veru okkar í Afganistan. Ég ætla ekki að draga það mál upp í þessu samhengi þó að ég hafi bent á það og ég held að þetta mál hefði ekki verið hér til umræðu nema vegna þess að Íslendingar eru að störfum í Afganistan. Það er auðvitað augljóst samhengi og það er ekki hægt að horfa fram hjá því.

Sagt er að það hafi ekki verið á ábyrgð friðargæsluliðanna að á þá var ráðist en þeirri spurningu hefur reyndar líka í þessari umræðu og á fyrri stigum verið varpað fram: Hvað voru þeir að gera á þeim stað sem þeir voru þegar á þá var ráðist þrátt fyrir að þeir hefðu verið sérstaklega varaðir við því að fara inn á það svæði? Það má auðvitað líka velta því fyrir sér hvort ábyrgðin sé ekki að einhverju leyti þeirra. Ég vil ekki fullyrða það en mér finnst ekki hægt að koma hér og segja að hún hafi engin verið. Þess vegna fagna ég því svari hæstv. utanríkisráðherra að hún hafi ákveðið að fela óháðum aðilum að rannsaka málið og tilgreinir hér tvo einstaklinga sem ég held að séu afskaplega færir og hæfir til að gera það. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það svar sem hún gefur og ég hlýt að kalla eftir því að skýrsla sú sem þessir einstaklingar munu vinna fyrir utanríkisráðuneytið verði kynnt í þinginu sjálfu, ekki aðeins í utanríkismálanefnd heldur í þinginu sjálfu. Ég spyr að því líka hvort þeim verði þá ekki m.a. falið að skoða hvort tilefni sé til þess að greiða skaðabætur, hvort einhver slík ábyrgð sé á íslenskum stjórnvöldum vegna þessara atburða að eðlilegt sé að greiddar séu skaðabætur.

Ég ætla ekki að fara frekar út í ágreining um þetta mál enda ekki tími til og ekki ástæða til því að það mál sem ég er að spyrja um sérstaklega lýtur kannski fyrst og fremst að því hvernig við stöndum að málum gagnvart þeim einstaklingum sem eiga um sárt að binda vegna þeirra atburða sem ég rifjaði upp og hæstv. utanríkisráðherra svaraði. (Forseti hringir.) Ég ítreka að ég þakka henni fyrir svarið.