135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

skattlagning á lífeyrissjóðstekjur.

395. mál
[14:17]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Málefni aldraðra voru eitt af höfuðáherslumálum allra stjórnmálaflokka í aðdraganda síðustu kosninga hvort sem um var að ræða aðbúnað aldraðra eða kjör þessa þjóðfélagshóps.

Aldraðir hafa á undanförnum árum lagt mikla áherslu á það og lögðu áherslu á það í aðdraganda síðustu kosninga að lífeyrissjóðstekjur þeirra mundu einungis bera 10% skatt líkt og aðrar fjármagnstekjur. Á undanförnum áratugum hafa launþegar greitt hluta af launum sínum í skyldusparnað sem ætlaður er til efri áranna. Þessi framlög einstaklinganna hafa ávaxtast eins og gefur að skilja á því tímabili. Þegar að töku lífeyris kemur þá er það vissulega svo að hluti af lífeyrissjóðstekjum viðkomandi einstaklings er sá hluti sem viðkomandi lagði fram en kannski ekki síður sú ávöxtun sem hefur safnast upp á þessum áratugum. Margir einstaklingar sem eru aldraðir í dag eyddu öllum þeim sparnaði sem þeir höfðu ráð á í þennan skyldusparnað á meðan aðrir sem nú eru aldraðir hafa á undanförnum árum getað lagt sparifé sitt umfram þennan skyldusparnað inn á bankareikning sem nú ber einungis fjármagnstekjuskatt. Því má í raun og veru segja að þeir einstaklingar sem ekki hafa haft efni á að leggja aukalega til hliðar í sparnað sem greiddur er fjármagnstekjuskattur af núna séu í verri málum en þeir sem voru efnaðir á sínum tíma og gátu lagt fjármuni til hliðar og greiða einungis 10% skatt af í dag. Það má velta því fyrir sér hvort hér sé um réttlætismál að ræða því að vissulega er hluti af lífeyrissjóðstekjum viðkomandi einstaklinga áunnar fjármagnstekjur í gegnum áratugina.

Eins og ég sagði áðan, hæstv. forseti, lögðu allir stjórnmálaflokkar mikla áherslu á að bæta kjör aldraðra, enda var svigrúm til þess þá. Samfylkingin lagði það m.a. til og það var eitt af höfuðstefnumálum þess flokks að lífeyrissjóðstekjur yrðu skattlagðar líkt og fjármagnstekjur eða um 10%. Nú hefði maður haldið að slíkt höfuðáherslumál þess stjórnmálaflokks hefði átt að rata inn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem það gerði því miður ekki. Því hef ég beint fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að skattur á lífeyrissjóðstekjur verði 10% rétt eins og Samfylkingin lagði til í aðdraganda síðustu kosninga.