135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

skattlagning á lífeyrissjóðstekjur.

395. mál
[14:20]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Um skattlagningu lífeyrissparnaðar gilda þær reglur að lífeyristekjur sem myndast á grundvelli laga nr. 129 frá 1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, eru skattlagðar eins og hverjar aðrar launatekjur við útgreiðslu, enda hafa iðgjöldin verið frádráttarbær frá skatti hvort heldur um er að ræða framlag atvinnurekandans eða launþegans. Þá eru lífeyrissjóðirnir sjálfir undanþegnir skattlagningu tekna.

Samanlagt lífeyrisiðgjald er alla jafna 12% nema sérstaklega hafi verið samið um annað í kjarasamningum. Launþega er skylt að greiða 4% iðgjald sem dregið er frá tekjum hans áður en þær koma til skattlagningar þannig að hlutur atvinnurekandans í iðgjaldinu er að jafnaði 8%. Að auki er launþega heimilt að greiða allt að 4% iðgjald til viðbótar skylduiðgjaldinu sem fæst frádregið frá skattskyldum tekjum, enda sé iðgjaldinu varið til öflunar lífeyrisréttinda í séreign, oft kölluð viðbótarlífeyrissparnaður. Launagreiðanda er heimilt að greiða 2% á móti séreignariðgjaldi launþegans. Með þessu móti er skattlagning af þeim tekjum sem ganga til öflunar lífeyrisréttinda frestað þar til að útgreiðslu þeirra kemur.

Breytt skattlagning þar sem lífeyrissparnaður yrði skattlagður eins og almennur sparnaður með 10% fjármagnstekjuskatti með afnámi skattfrelsisiðgjalda gæti ekki tekið til þeirra einstaklinga sem hafa notið skattfrelsis af iðgjaldinu hingað til heldur einvörðungu til þeirra sem eru að hefja greiðslur í lífeyrissjóði. Slík breyting mundi því kalla á rekstur tveggja mismunandi lífeyriskerfa næstu áratugina sem tæpast getur talist fýsilegur kostur.

Gildandi skattmeðferð þar sem lífeyrisiðgjöld og tekjur lífeyrissjóða eru undanþegnar skattlagningu en greiðslur úr lífeyrissjóðum til lífeyrisþega eru skattlagðar eins og hverjar aðrar launatekjur, eru í fullu samræmi við þær skattareglur sem beitt er í öðrum löndum sem reka lífeyriskerfi með svipuðum hætti og gert er hér á landi. Sú staðreynd skiptir miklu ekki síst í ljósi þess mikla flæðis vinnuafls til og frá landinu.

Eins og áður segir eru öll iðgjöld nú skattfrjáls sem greidd eru í lífeyrissjóði. Fjármagnstekjur eru ekki skattlagðar hjá lífeyrissjóðunum en þegar lífeyrir kemur til greiðslu er hann skattlagður eins og hverjar aðrar tekjur. Lífeyrisþegar njóta frítekjumarks eins og aðrir, sem nú er um 95 þús. kr., en greiða eftir það tekjuskatt og útsvar.

Útborganir til lífeyrisþega eru í dag í flestum tilfellum undir skattleysismörkum sem leiðir til þess að aldrei er greiddur skattur af lífeyrissparnaðinum. Með upptöku 10% fjármagnstekjuskatts af lífeyristekjum þyrftu því margir að hefja greiðslu skatts af lífeyristekjum sínum sem engan skatt greiða í dag.

Margoft hefur það verið borið saman hvort kæmi betur út fyrir lífeyrisþega að skattleggja innborganir í sjóðinn eins og hefðbundnar launatekjur, skattleggja hagnað lífeyrissjóðanna með 10% fjármagnstekjuskatti og afnema skatt við útborgun lífeyrisgreiðslna í stað þess kerfis sem nú er beitt. Allur slíkur samanburður staðfestir að núverandi kerfi er hagstæðara fyrir lífeyrisþega.

Að öllu framansögðu eru því ekki uppi áform af hálfu fjármálaráðherra að breyta þeirri skattalegu meðferð sem nú gildir um lífeyristekjur. Hitt er svo annað mál að kjör aldraðra hafa verið bætt verulega á síðustu árum, bæði vegna þeirra samninga og þess samkomulags sem fyrri ríkisstjórn gerði við eldri borgara og síðan vegna þeirra breytinga á lögum og fjármunum sem til ráðstöfunar eru og ákveðnir voru á yfirstandandi þingi.

Ef hv. þingmaður er með málflutningi sínum að reyna að koma því inn að núverandi ríkisstjórn og stjórnarflokkarnir hafi ekki staðið við það að bæta kjör eldri borgara eftir kosningarnar þá fer hann ekki með rétt mál.