135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

skattlagning á lífeyrissjóðstekjur.

395. mál
[14:26]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin sem og hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir sitt innlegg í umræðuna. Það er nefnilega hárrétt sem hv. þingmaður sagði hér á undan mér að það er náttúrlega verið að flækja málið allverulega í annars ágætu svari og ekki ætla ég að bera brigður á það að ráðherra hafi farið þar með eintómar staðleysur. Hins vegar er vilji allt sem þarf og þetta mál snýst um pólitískan vilja. Mikið hefði ég viljað, hæstv. forseti, að hinn málglaði hæstv. iðnaðarráðherra hefði komið upp og staðið hér fyrir hönd Samfylkingarinnar og varið það loforð sem Samfylkingin gaf eldri borgurum í aðdraganda síðustu kosninga. Auðvitað vekur það athygli að enginn samfylkingarmaður skuli koma upp og verja stefnu síns flokks í þessu máli. Því að staðreyndin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn hefur í þessu máli eins og svo mörgum öðrum málum lagt Samfylkinguna undir sig gjörsamlega, enda er það svo að Samfylkingin hefur því miður þurft að éta ansi margt ofan í sig á síðustu vikum og mánuðum eins og hæstv. iðnaðarráðherra þekkir.

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að hægt er að breyta málum í þá átt að hluti af lífeyrissjóðstekjum aldraðra verði skattlagður sem fjármagnstekjur, enda er það óumdeilt að hluti af þeim tekjum sem lífeyrisþegar fá í dag eru fjármagnstekjur. Ég er á því að skoða eigi það að skattleggja þær tekjur sem sannanlega eru komnar til vegna tekna af fjármagni á undanförnum áratugum. Það er ekkert svo flókið að kanna með hvaða hætti slík samsetning er. En eitt er ljóst af svari hæstv. ráðherra að núverandi ríkisstjórn ætlar sér ekki að skattleggja að minnsta kosti hluta tekna eldri borgara sem fjármagnstekjur enda er það svo að Sjálfstæðisflokkurinn (Forseti hringir.) hefur yfirhöndina í þessum málaflokki í ríkisstjórnarsamstarfinu.