135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

Fasteignamat ríkisins.

473. mál
[14:30]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Starfsemi Fasteignamats ríkisins hefur vaxið mjög mikið á undanförnum árum. Á árinu 2001 voru 48 starfsmenn hjá stofnuninni en í fyrra voru þeir orðnir 68 og hafði fjölgað um 20. Starfsmönnum hafði fjölgað mest í Reykjavík, úr 33 í 47 eða 14. Þeim hafði fjölgað á Akureyri úr fimm í 13 eða um átta. Þeim hafði fjölgað á Selfossi úr fjórum í sex eða um tvo en fækkað á Egilsstöðum úr þremur í einn og í Borgarnesi úr þremur í tvo.

Nýlega bárust fréttir af því að ákveðið hefði verið að loka skrifstofunum í Borgarnesi og á Egilsstöðum í sparnaðarskyni. Reyndar hafa málin gengið svo hratt fram að eftir að fyrirspurnin var lögð fram en áður en tókst að svara henni var búið að loka skrifstofunni á Egilsstöðum. Það mun hafa verið gert 11. apríl, eftir mínum heimildum.

Nú hefur þessum tveimur starfsmönnum í Borgarnesi verið tilkynnt að þeir geti haldið áfram að vinna hjá stofnuninni ef þeir vinni í Reykjavík. Ef maður skoðar tölur um starfsemi stofnunarinnar kemur í ljós að með því að loka skrifstofunni í Borgarnesi er hægt að spara sem nemur húsnæðiskostnaði, 1,5 millj. kr. á ári. Kostnaðurinn við tilboð starfsmanna, að þeir megi keyra frá heimili sínu til starfsstöðvar í Reykjavík, að verulegu leyti á kostnað stofnunarinnar næstu þrjú ár, gerir það að verkum að kostnaðurinn við það er mun meiri en sá sparnaður sem næst með niðurlagningu skrifstofunnar. Það eru um 4 millj. kr. í útgjaldaauka á móti 1,5 milljón sem á að sparast. Það er því ekki sparnaður, virðulegi forseti, sem er undirrót ákvörðunar fyrir því að leggja niður útibúið í Borgarnesi og líklega á Egilsstöðum. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson þekkir þetta mætavel og eflaust upplýsir hann okkur um það hvers vegna hann beitti sér fyrir því að loka útibúinu á Egilsstöðum.

Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram hér fyrirspurn til hæstv. ráðherra til þess að fá skýringar á þessari ákvörðun í tveimur liðum, með leyfi forseta:

1. Hvers vegna hefur verið ákveðið að loka skrifstofum Fasteignamats ríkisins í Borgarnesi og á Egilsstöðum og fjölga þannig störfum stofnunarinnar í Reykjavík en fækka störfum á landsbyggðinni?

2. Hver verða áhrif breytinganna á launakostnað stofnunarinnar?