135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

Fasteignamat ríkisins.

473. mál
[14:38]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Eftir samtöl við sveitarstjórnarmenn á Austurlandi og eftir að hafa kynnt mér starfsemi Fasteignamats ríkisins á Egilsstöðum er alveg ljóst að mikil ánægja hefur verið með starfsemi þeirrar skrifstofu á Austurlandi. Það er í raun og veru óskiljanlegt af hverju hæstv. ráðherra stendur að því að loka einu skrifstofu Fasteignamats ríkisins á Austurlandi þar sem mikil ánægja hefur verið með þá starfsemi. Þetta er kannski í takt við aðra stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum. Lýðheilsustöð hefur sagt upp samningi við Háskólann á Akureyri. Forstöðumaður veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar var fluttur frá Akureyri til Reykjavíkur, það var eitt fyrsta verk núverandi umhverfisráðherra. Búið er að auglýsa án staðfestingar forstöðumannsstöðu fyrir Vatnajökulsþjóðgarð og nú stefnir allt í að sá forstöðumaður verði ekkert í nágrenni þjóðgarðsins, hann verður í Reykjavík.

Þessi spor ríkisstjórnarinnar eru í raun og veru algjörlega í andstöðu við það (Forseti hringir.) sem forsvarsmenn þessara flokka boðuðu í aðdraganda síðustu kosninga og er ekki á stöðu landsbyggðarinnar bætandi (Forseti hringir.) nú um þessar mundir.