135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

fjárveitingar til þjóðlegra greina við Háskóla Íslands.

465. mál
[15:08]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég ætla að reyna að svara þessari fyrirspurn frá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur sem er í þremur liðum eins og kom fram áðan.

„1. Hvernig hafa þær 40 millj. kr. verið nýttar sem veittar voru á fjárlögum fyrir árið 2007 á liðnum 02-201-1.01 til að „styðja við þjóðlegar greinar“ við Háskóla Íslands?“

Samkvæmt upplýsingum frá háskólanum runnu þessar 40 millj. kr. óskiptar til hugvísindadeildar Háskóla Íslands. Árið 2007 fékk hugvísindadeild um 595 millj. kr. af rammafjárveitingum til Háskóla Íslands, þar með talið þær 40 milljónir sem hér er um rætt. Almennt er ráðuneytið ekki með bein afskipti af rekstri einstakra deilda Háskóla Íslands og hefur aldrei hlutast til um hvernig skólinn dreifir fjárframlögum sínum milli deilda eða skora. Það hefur oft komið áður fram í umræðum hér á hinu háa Alþingi að auðvitað eru skiptar skoðanir innan háskólans, meðal háskólamanna hvernig háskólinn dreifir því en það er á endanum alltaf háskólinn sem hefur ákvörðunarvald um það hvernig fjárveitingunum er skipt, m.a. á grundvelli þeirrar meginreglu sem við höfum staðfest hér í rammalöggjöf um sjálfstæði háskóla á Íslandi.

Í umræddu tilfelli var ákveðið að sérgreina fjárveitingu til þjóðlegra greina sem kenndar eru innan Háskóla Íslands en í fjárlögum 2007 eru þjóðlegar greinar, eins og fram kom hjá hv. þm. Merði Árnasyni, skilgreindar sem m.a. íslenska, íslensk fræði og málvísindi, sagnfræði og íslenskt táknmál.

„2. Hvaða greinar hafa notið fjárins og hvernig hefur því verið varið í hverri grein um sig?“

Hugvísindadeild Háskóla Íslands skiptist í sjö skorir og segja má að þrjár þeirra teljist bjóða fram nám sem telst til þjóðlegra greina, þ.e. íslenskuskor, sagnfræði- og fornleifafræðiskor og bókmenntafræði- og málvísindaskor. Samkvæmt upplýsingum frá Háskóla Íslands nutu allar þessar skorir fjárins að einhverju leyti. Hins vegar á Háskóli Íslands nokkuð erfitt með að greina nákvæmlega hvernig þessu viðbótarfjármagni hefur verið varið í hverri grein fyrir sig en almennt nutu þær þess með bættum hag milli ára og fjármagnið gerði þeim kleift að bæta fjárhagsstöðu sína verulega. Ég bendi hv. fyrirspyrjanda sérstaklega á að fjárveitingin gerði m.a. íslenskuskor kleift að auglýsa tvö störf sem ráðið var í, þ.e. annars vegar starf lektors í íslenskum miðaldabókmenntum og hins vegar starf lektors í bókmenntum í greininni íslenska fyrir erlenda stúdenta.

„3. Telur ráðherra frekari þörf á að styðja umræddar greinar við Háskóla Íslands?“

Samkvæmt samningi við Háskóla Íslands sem undirritaður var 11. janúar 2007 er gert ráð fyrir umtalsverðum viðbótarframlögum til háskólans eða um 640 millj. kr. árlega frá árinu 2008 til 2010. Í samningnum eru tilgreind sameiginleg markmið samningsaðila og þar segir m.a., með leyfi forseta: „að starfsemi Háskóla Íslands skuli þjóna því markmiði að efla og rækta íslenska menningu, íslenska tungu og menningararf.“

Háskóli Íslands geri síðan ráðuneytinu skriflega grein fyrir því fyrir 31. maí ár hvert hvernig skólanum miðar við að ná þeim markmiðum og öðrum sem sett hafa verið vegna umrædds samnings og þar eru tilgreind. Á væntanlegum fundi með háskólanum í vor verður sérstaklega skoðaður árangur skólans við að ná þeim markmiðum að efla og styrkja íslenska menningu og menningararf.

Herra forseti. Það hefur verið stefna mín frá upphafi að hlúa vel að íslenskri tungu og merki um það er t.d. frumvarp sem lagt var fyrir þingið og varð að lögum, um að íslensku stofnanirnar fimm, eins og þær voru oft nefndar í umræðunni, voru sameinaðar í eina stofnun, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Ég tel tvímælalaust að það skref hafi verið rétt og gott. Við munum á komandi haustþingi fá í fyrsta sinn tækifæri hér á hinu háa Alþingi til þess að ræða íslenska málstefnu sem mun birtast í kjölfar fundaraðar sem efnt var til á vegum Íslenskrar málnefndar og stendur nú yfir og lýkur í sumar.

Það hefur því verið stefna mín frá upphafi að hlúa vel að íslenskri tungu, menningararfi okkar, og með því að vera með þetta sérstaka ákvæði í samningnum við Háskóla Íslands er sú stefna enn og aftur staðfest.