135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

fjárveitingar til þjóðlegra greina við Háskóla Íslands.

465. mál
[15:13]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hér var í sjálfu sér hvorki í fyrirspurninni né í framsögunni efast um góðan vilja hæstv. menntamálaráðherra í þessu efni og bæði fyrirspyrjandanum og framsögumanninum er kunnugt um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og reyndar einnig um það starf sem Íslensk málnefnd hefur unnið af kostgæfni og djörfung núna í vetur. Því má kannski segja að þær upplýsingar hafi verið umframar en það hefði kannski mátt, forseti, mátt beina athyglinni betur að þeim spurningum sem fyrir voru lagðar.

Það er auðvitað ákveðinn vandi á milli þess að Háskóli Íslands eins og aðrir háskólar af hans tagi, þar sem hann er auðvitað algjörlega fremstur, hefur sjálfstæði um sín fjármál — og hins vegar þess að ráðherrann og þingið beini fé til ákveðinna tiltekinna verkefna innan háskólans. Ég verð að segja það eins og er að það eru ekki nógu góð svör eftir að menn hafa talað margt um hinar 40 þjóðlegu milljónir króna á sínum tíma, á síðasta vetri þess kjörtímabils sem þá leið, að geta svo ekki sagt okkur meira um það núna en að þeir í háskólanum telji að allar þessar greinar, þessar fjórar greinar njóti fjárins að einhverju leyti.

Þegar Alþingi Íslendinga ver skattfénu til tiltekinna verkefna eins og hér um ræðir þá eiga skattborgararnir og almenningur á Íslandi heimtingu á að vita hvernig því fé er varið. Ég held að við hljótum að vera sammála um það, ég og menntamálaráðherra. Í þeim samningi sem ég vitnaði til áðan er það skylda ríkisins að tryggja með árlegu viðbótarframlagi á fjárlögum þær fjárhagslegu forsendur sem fyrir hendi þurfa að vera til þess að þessar greinar haldist uppi.

Engu að síður þakka ég fyrir svörin og vona að samræður hæstv. ráðherrans (Forseti hringir.) við yfirvöld í háskólanum í vor leiði betur í ljós hvernig þessu fé hefur verið varið og hvort (Forseti hringir.) vilji Alþingis og þjóðarinnar hefur náð fram að ganga í þessu efni.